Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:19]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Það er mikið gleðiefni að sjá og finna að landið er að rísa. Okkur gengur vel að bólusetja þjóðina og við nálgumst endurvakningu þess sem við getum kallað eðlilegt líf. Ásamt þessu fer atvinnuleysi minnkandi en ríkisstjórnin hefur farið í ýmsar aðgerðir í þágu atvinnuleitenda. Þar má nefna atvinnuátak félags- og barnamálaráðherra, sem kallast Hefjum störf. Átakið skapar allt að 7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ferðaþjónustan er t.d. farin að ráða til sín starfsfólk með því átaki ásamt endurkomu erlendra ferðamanna. Þó horfa atvinnurekendur nú á óvæntan vanda. Fjöldi einstaklinga er á atvinnuleysisskrá, en að sögn atvinnurekenda gengur misjafnlega að fá fólk til að þiggja vinnu. Það liggur fyrir að einhverjir þeirra sem hafna vinnu hafa meiri áhuga á því að þiggja bætur í stað þess að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Slíkir einstaklingar rýja atvinnuleysisbótakerfið trausti sem stendur þeim að baki sem í neyð eru. Vinnumálastofnun hefur nú þegar þurft að taka 350 einstaklinga af bótum vegna þess að þeir hafa ítrekað hafnað vinnu. Margir hafa komist upp með þá iðju vegna þess að atvinnurekendur sleppa því að tilkynna höfnun til Vinnumálastofnunar. Það er óásættanlegt að verið sé að tryggja einstaklingum atvinnu á ný en að þeir kjósi samt að sitja heima á bótum. Það er mikilvægt að koma sem flestum út á vinnumarkaðinn sem fyrst og því hvet ég atvinnurekendur til að vera í góðu sambandi við Vinnumálastofnun og tilkynna um slíkar hafnanir.