Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fengum fulltrúa ferðaþjónustunnar á fund okkar í atvinnuveganefnd í morgun og tókum stöðuna með sömu aðilum og við tókum stöðuna með fyrir ári síðan í þessum Covid-faraldri. Það voru aðilar frá markaðsstofunum vítt og breitt um landið, eða áfangastofunum, eins og þær heita í dag, og Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Íslandsstofu. Það er vissulega mikil bjartsýni á framhaldið, sumarið, og þá viðspyrnu sem þarf að vera í ferðaþjónustunni. Og þó að það sé kannski of snemmt að spá til um hvort 700.000 gestir komi hingað til landsins í ár þá eru mörg góð teikn á lofti. Sérstaklega hefur komið mikið af ferðamönnum frá Bandaríkjunum og reiknað er með að ferðamenn frá Evrópu komi um mitt sumar þegar ástandið fer að batna þar og bólusetningar að aukast, en ekki er reiknað með Asíumarkaði í ár.

Mörg fyrirtæki koma vissulega löskuð út úr þessum Covid-faraldri, en það er lítið um gjaldþrot, sem betur fer, og allar þær ráðstafanir og úrræði sem stjórnvöld hafa boðið upp á, hjálpa vissulega. Þó hafa mörg lítil fyrirtæki ekki getað nýtt sér þennan stuðning þar sem þau falla ekki inn í það módel sem lagt hefur verið upp með, kannski fyrirtæki sem eru bara með starfsemi yfir hásumarið og eru með blandaðan rekstur og á sömu kennitölu. Ég legg mikla áherslu á að við stöndum með þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum vítt og breitt um landið. Þau skipta miklu máli fyrir fjölbreytta ferðaþjónustu um land allt. Það er mikilvægt að byggja upp öflugt stoðkerfi og efla innviðauppbyggingu svo þau blómstri, því að það er fjölbreytni sem ferðamenn eru að sækjast eftir, ekki bara erlendir ferðamenn heldur líka innlendir. Það ríkir bjartsýni sem við þurfum að fara með inn í sumarið í þessum geira sem öðrum.