151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Landssamband eldri borgara hefur kynnt fimm áherslupunkta undir yfirskriftinni: Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf. Þessir áherslupunktar hafa verið kynntir öllum þingflokkum nú undanfarið. Svo ég fari aðeins yfir punktana þá segir hér, með leyfi forseta:

„1. Eldra fólk fái að vinna eins og það vill. 2. Starfslok miðist við færni en ekki aldur. 3. Heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar. 4. Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis. 5. Ein lög í stað margra lagabálka.“

Það er svo ánægjulegt, herra forseti, að Miðflokkurinn hefur lagt fram þingmál sem varða þrjá af þessum fimm áherslupunktum. Við höfum lagt til að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Við höfum lagt til að ríkisstarfsmenn megi vinna allt til 73 ára aldurs ef þeir hafa hug á og getu til. Að vísu eyðilagði ríkisstjórnin það mál, því var beint til hennar í fyrra gegn loforði um að það kæmi fram af hennar hendi en ekki var staðið við það.

Hvað varðar ein lög í stað margra lagabálka hefur Miðflokkurinn lagt fram þingsályktunartillögu um að skorið verði á milli laga um eldri borgara og laga um öryrkja.

Hvað varðar punkta númer 3 og 4, þ.e. að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustu og um millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis, hefur Miðflokkurinn unnið að verkefni eða stefnu sem kallast Frá starfslokum til æviloka, og verður kynnt nú eftir viku á landsþingi flokksins. Þar er tekið á því sem fram kemur í punktum 3 og 4 í þessum áherslupunktum eldri borgara.

Það er því ljóst, herra forseti, að hjarta Miðflokksins slær með eldri borgurum og það mun koma fram hér eftir sem hingað til. Við munum endurflytja þessi mál eins oft og þurfa þykir og fylgja þeim fast eftir.