151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hefja máls á þessari umræðu hér. Hún varpar fram spurningum sem hverja og eina væri sjálfsagt hægt að ræða í löngu og ítarlegu máli. Eins þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann hefur borið hér fram og aflað að miklu leyti hjá Skattinum.

Við erum náttúrlega í þeirri aðstöðu, herra forseti, að við erum að leitast við að fóta okkur í nýrri veröld. Hin nýja veröld einkennist af þáttum eins og alþjóðavæðingu. Við sjáum að það er hörð alþjóðleg samkeppni. Það eru harðar kröfur um arðsemi fyrirtækja, hagræðingu í rekstri. Þetta hefur kallað á miklar afleiðingar fyrir vinnuafl, eins og menn þekkja. Þetta hefur sýnilega haft stjórnmálalegar afleiðingar í ýmsum löndum þar sem vinnandi fólk hefur talið að störf hafi flust í burtu. Við erum sömuleiðis að leitast við að fóta okkur í heimi þar sem við erum vöruð við því af hálfu lögreglu að það sé vaxandi hlutur erlendra aðila í ólögmætri starfsemi hér á landi og fjöldi manns við brotastörf, að sögn lögreglu. Við erum hér með lög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og vorum minnt á að við þurfum að vera á tánum til að fullnægja þeim kröfum sem til okkar eru gerðar. Við lentum þarna á gráum lista. En ég vil að lokum segja það, herra forseti, að það þarf að taka fast á ólögmætum viðskiptum og tryggja þeim yfirvöldum sem um þau fjalla nauðsynlegan mannafla og búnað sem þar starfa.