151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[13:54]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og aðrir, þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Hún er mjög athyglisverð. Ég hef einmitt, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvernig hún sér fyrir sér breytingar mögulegar á núverandi skattareglum til að ná betur utan um þessa hluti.

Það er vissulega ekki ólöglegt að eiga peninga í aflandsfélögum, í skattaskjólum, eins og hér hefur komið fram, en er það siðferðislega verjandi? Skattaskjól eru í grunninn svæði þar sem ekki eru greiddir tekjuskattar. Skapaðar eru fléttur þar sem gagngert er reynt að losna undan eðlilegum og lögbundnum skattgreiðslum. Treysta þarf á siðferði þeirra sem eiga aflandsfélög og að þeir fari eftir settum reglum. Það er næstum vonlaust að vita til fulls hvort allt sé gefið upp og hver tilgangurinn er með að eiga slíkt félag. Á sama tíma erum við hér heima að vinna saman að því að byggja upp samfélag þar sem allir eiga að hafa rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, menntun, góðu húsnæði og jöfnum tækifærum. Það er eðlilegt að fólk verði sárt og reitt þegar fréttir berast af því að þjóðarbúið verði af skatttekjum á meðan reikningar í aflandsfélögum vaxa og dafna. Kant kom fram með hugmyndina um almannaviljann, að breyta ávallt þannig að lífsreglan sem maður fylgir eigi að verða að almennu lögmáli. Með öðrum orðum, maðurinn á að hugsa um hvort hann vilji að allar hans athafnir verði að alheimslögmáli og breyta samkvæmt því. Ef maður ákveður að svíkjast um er hann samþykkur því að aðrir svíki á sama veg.

Virðulegi forseti. Síðustu ár hefur orðið aukin samstaða um mikilvægi siðferðis í viðskiptalífinu. Völd og áhrif fyrirtækja eru meiri en nokkru sinni fyrr. Við erum fámenn þjóð og við ættum að hafa alla burði til þess að geta veitt alla nauðsynlega þjónustu og vel það. En svo það sé hægt er mikilvægt að allir skoði sinn innri mann.