151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og við mátti búast er öllu grautað saman í þessari umræðu. Það virkar á mann eins og verið sé að reyna að þyrla upp einhverju ryki. Ég er engu nær eftir ræðu upphafsmanns þessarar umræðu hvað hv. þm. Oddný Harðardóttir leggur til. Er verið að leggja til að við bönnum Íslendingum að eiga eignir á lágskattasvæðum? Eða er verið að leggja til að það eigi að breyta skattalögum með einhverju hætti og hvernig þá? Við erum sjálf að reyna að draga til okkar erlenda starfsemi með skattaívilnun, sérstaklega í kvikmyndagerð. Eru menn að tala um að banna það? Hvert eru menn að fara? Kjarni málsins hjá okkur er sá að við getum fengið upplýsingar og haft þar af leiðandi eftirlit með hugsanlegum skattundanskotum eða skattalagabrotum. Það hefur verið gert ótal margt á síðustu misserum og árum til að tryggja það, eins og hæstv. fjármálaráðherra fór hér yfir. Það er auðvitað það sem skiptir okkur máli, að greiddir séu réttir skattar þar sem á að greiða þá.

Ég vil líka andmæla því sérstaklega sem kemur alltaf fram, þ.e. að verið sé að draga úr skatteftirliti í nýlegum lögum þar sem skattrannsóknarstjóri var sameinaður Skattinum. Hann var ekkert lagður niður. Það er ekki verið að hugsa um að draga úr skatteftirliti nema síður sé. Það er verið að gera það betra og markvissara. Hér er auðvitað bara verið að þyrla upp einhverju ryki, kannski af því að það er stutt í kosningar, ég veit það ekki. En þessari umræðu er löngu lokið. Það er búið að gera svo margt til að tryggja að við fáum réttar upplýsingar, það sé rétt skattlagning. Við erum meira að segja búnir að tryggja það að ef skattlagning í lágskattafélögum fer undir ákveðið lágmark getum við skattlagt það hér. Það er kjarni málsins.