151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu efni. Það er mikilvægt og það er einnig mikilvægt að við ræðum það opinskátt og reynum að ná einhvers konar samhljómi um hvað skiptir máli. Gegnsæi á fjármálamörkuðum er nefnilega afar mikilvægt, ekki bara sjálfs síns vegna heldur líka vegna þess að það traust sem af því hlýst hlýtur að vera hluti af líminu í samfélaginu, trygging fyrir því að sömu reglur gildi fyrir alla og að allir fari eftir þeim.

Eitt af því sem nú er rætt er mikilvægi dreifðs eignarhalds á markaði og er almenningur jafnvel hvattur til að leggja hluta af sparifé sínu í fyrirtæki á markaði. Við þær aðstæður er sérstaklega mikilvægt að upplýsingar liggi fyrir, bæði vegna siðferðilegra spurninga sem kunna að vakna hjá þeim sem ætla að leggja peninga í fyrirtæki, þ.e. hvort þeir sem þeir eru að fara í viðskiptasamband með leggi sitt til samfélagsins, skulum við segja, en einnig vegna þátta sem snúa að jafnræði fjárfesta. Gegnsæi á fjármálamörkuðum og aðgengi að upplýsingum sem kunna að nýtast fjárfestum þarf að vera tryggt, allar þessar upplýsingar þurfa að vera tryggar. Reynsla tveggja liðinna áratuga og hrunið hafa sýnt okkur mikilvægi þessa. Heilbrigt fjármálakerfi skiptir velferð okkar allra máli. Þátttaka þeirra sem eiga raunverulega fjármuni í félögum á markaði í að greiða fyrir velferðarkerfið er forsenda þess að sátt geti verið í samfélaginu um fjármálamarkaðinn.