151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:09]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þegar horft er á mögulegar lausnir á þessu vandamáli er eitt sem sjaldan er snert á þótt það sé augljóst, að styrkja og efla eftirlitsstofnanir og alþjóðasamvinnu milli eftirlitsstofnana með nægilega drjúgum hætti til að þær hafi burði til að rannsaka stórfelldu svikarana sem nýta sér þessa þjónustu. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja niður skattrannsóknarstjóraembættið og Fjármálaeftirlitið og fela öðrum vanfjármögnuðum stofnunum þau verkefni, er á vissan hátt rót vandans. En þótt Ísland eitt og sér sé ekki burðugt til að stöðva þessa starfsemi á aflandseyjum eða koma í veg fyrir alþjóðleg skattsvik eða hindra ólögmæta fjármagnsflutninga þá hefur það alla burði til að rannsaka stærstu brotin sem snúa að íslenskri lögsögu. Stofnanirnar sem hafa með þetta að gera hafa oft takmarkaða burði til rannsókna og þurfa jafnvel að reiða sig á gagnaleka. Er það til marks um að víða er pottur alvarlega brotinn. Það hjálpar ekki að sumir þingmenn hafa sérhæft sig í því að stækka gráa svæðið og gera útlínur þess loðnari, eins og heyra mátti á ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar. Raunar er gallinn við upplegg upphafsmanns þessarar umræðu það að hún spyr spurninga sem ríkið hefur ekki svör við og getur mögulega ekki haft svör við og vill mögulega ekki hafa svör við. En sé slíkur vilji fyrir hendi er ljóst að það er langur vegur að því að þessi vandamál verði leyst með ásættanlegum hætti.

Ég ætla reyndar að segja að ég hef ekki stórkostlegar áhyggjur af skattsvikum Íslendinga gagnvart íslenskum stjórnvöldum, þau eru mestmegnis minni háttar í stóra samhenginu. Eflaust er hægt að leysa úr þeim með því að styrkja stofnanir ríkisins. Mínar áhyggjur eru mun frekar þær að aflandseyjur eru alþjóðlega orðnar grundvöllur nútímanýlendustefnu undir stjórn alþjóðlegra fyrirtækja sem nýta sér veikleika stjórnkerfa fátækra landa til að stunda víðfeðmt arðrán. Áhersla Alþingis í þessum efnum ætti að vera að tryggja að engin íslensk fyrirtæki geti komist upp með slíkt, og að vinna með þeim þróunarríkjum sem við styðjum til að efla varnir þeirra gegn slíku.