151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:11]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Það hefur verið viðloðandi vandamál í mörg ár að einstaklingar og lögaðilar færi fé á dulda staði í von um að fela það og sleppa við að greiða skatt. Á sama tíma njóta þessir aðilar alls þess góða sem land og þjóð bjóða upp á. En eins og við höfum lært þá getur hvaða aðili sem er stundað þessa iðju, hvort sem það eru glæpamenn, viðskiptamenn eða jafnvel ráðamenn, og hafa verið gripnir við skattundanskot, sniðgöngu um allan heim síðustu ár. Að koma upp um skattundanskot og sniðgöngu getur reynst rannsóknarmönnum erfitt. Um er að ræða langan þráð af peningafærslum og mikla skjalavinnslu sérfræðinga sem þræða í gegnum reglur og stefnur í leit að glufum og gráum svæðum sem þeir nýta svo á nær listrænan hátt. Ríki heimsins hafa hert reglur sínar og unnið meira saman í baráttunni við skattundanskot. Það er fagnaðarefni, en í þeirri vinnu þurfa allir að vera á tánum. Sérfræðingar eru fljótir að finna ný göt í reglum og við þurfum að bregðast fljótt við og fylla í þau göt. Það gerist aðeins með gaumgæfilegum rannsóknum, fræðslu og ströngum reglum sem brjóta þó ekki á frelsi aðila sem vinna í góðri trú. Að auki byggist slík vinna á samvinnu milli ríkja, sérstaklega í ljósi þess hversu alþjóðlegs eðlis skattundanskot eru, og þá helst í samvinnu við þau ríki sem eru virk í þeirri skattasamkeppni sem myndar tækifæri til skattsniðgöngu.