151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið ágætlega fram í umræðunni að við höfum verið að gera miklar breytingar á íslensku löggjöfinni í skattamálum síðastliðinn áratug. Við höfum líka gripið til aðgerða sem áður höfðu ekki séð dagsins ljós. Ég nefni kaup á skattgögnum í því efni. Það er einstök aðgerð í skattaframkvæmdinni á Íslandi að kaupa gögn um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Álagning sem fylgdi í kjölfarið var umtalsverð, þó að við höfum ekki upplýsingar á þessari stundu um innheimtu vegna álagðra nýrra skatta, en öruggt er að það er vel umfram það sem lagt var í kaup á gögnunum.

Við erum sömuleiðis búin að rekja hér í þessari umræðu nokkrar mikilvægar breytingar. Á sínum tíma, árið 2009, var farið í breytingar á 57. gr. a í tekjuskattslögunum þar sem tekið var á lágskattaríkjum. Gegnum tímann hefur sú grein tekið breytingum þannig að við þróum þá lagagrein í þá átt að skilgreina skýrt hvað við teljum vera lágskattaríki. Í íslenskum skattalögum eru þau í raun og veru ekki viðurkennd. Það er ekki viðurkennt að hægt sé að skattleggja sig í lágskattaríki, en það eru þau ríki sem eru með skatta sem eru meira en tveimur þriðju lægri en íslenskir skatturinn hefði verið fyrir viðkomandi lögaðila sem taldir eru upp í ákvæðinu. Þetta eru grundvallaraðgerðir, grundvallarbreytingar sem við höfum farið í og það er mjög mikilvægt að við ruglum ekki saman við alþjóðlega starfsemi fyrirtækja því sem heyrir undir lágskattaríki í skattalögum á Íslandi. Það er nefnilega ekki sérhver alþjóðleg atvinnustarfsemi sem er ólögleg eða ósiðleg, eins og oft mætti ætla af umræðunni.

Ég þakka fyrir gagnlega umræðu. Og að lokum bara þetta: Við vorum ekki að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra heldur sameina það Skattinum.