151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það liggur fyrir að þessi hópur er bólusettur frá og með 26. mars síðastliðnum einmitt vegna mikilvægis þess að hann sé bólusettur. Það var gert beinlínis samstundis og listarnir lágu fyrir. Ef við höfum það í huga að samfélagið hefur verið hér meira og minna á öðrum endanum í rúmt ár þá verð ég að viðurkenna að það að erfitt hafi verið að ná utan um foreldra þessara langveiku barna finnst mér ekki vera sérstaklega góð skýring. Látum það liggja á milli hluta, en þetta liggur að miklu leyti fyrir í þeim félagsskap sem foreldrar þessara barna eru.

Til viðbótar þessu langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra núna, af því að ég reikna með að þetta verði síðasta Covid-skýrslan sem hæstv. ráðherra leggur fyrir þetta þing, í tengslum við samninga sem fyrirhugað er að gera: Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að samið verði við alla framleiðendur bóluefna þannig að almenningur hafi val þar um hvað viðkomandi þiggur eða hvort við verðum áfram einvörðungu í Evrópusamstarfinu, sem við höfum verið föst í núna um allnokkurt skeið? Sömuleiðis spyr ég: Liggja fyrir einhverjar áætlanir um hvort bólusetja þurfi oftar en tvisvar? Eru einhverjar upplýsingar sem liggja fyrir um það? Og síðan, ef hæstv. ráðherra getur svarað því, af því að ég veit að aðstoðarmenn hennar eru að senda upplýsingar í símann hér í pontu: Liggur fyrir hver áfallinn kostnaður er núna vegna bóluefna og hvaða áætlanir liggja fyrir um heildarkostnað?