151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi áframhaldandi samninga um kaup á bóluefnum þá hefur Evrópusambandið nú þegar gert samning við Pfizer um næstu tvö ár. Við erum tilbúin til að vera þátttakendur í því samstarfi. Við höfum þó ekki lokið skoðun á fleiri valkostum í þeim efnum en við munum þurfa bóluefni áfram inn á árið 2022. Það liggur fyrir. Það er til skoðunar að við þurfum „viðbótar-búst“, eins og kallað er, og mögulega munum við vilja bólusetja börn á aldrinum 12–15 ára. Þetta er allt saman til skoðunar. Við erum nýbúin að kalla eftir tölum hjá embætti landlæknis varðandi það hversu mikið fé við höfum reitt af hendi til kaupa á bóluefnum. Ég er ekki með þær tölur akkúrat í dag varðandi heildarkostnaðinn.

En af því að hv. þingmaður talar þannig og ég veit að hv. þingmaður hefur haft efasemdir um samflotið með Evrópusambandinu, þá held ég að það hafi sýnt sig að hafa verið mjög skynsamleg ráðstöfun, en við höfum til viðbótar við það líka fengið bóluefni að láni frá Norðmönnum sem hjálpaði til. Ísland er núna meðal þeirra ríkja í Evrópu sem eru komin hvað lengst í bólusetningum og raunar var það þannig í strax í síðustu viku að við fórum fram úr Bandaríkjamönnum varðandi tíðni á bólusetningum. Þannig að yfir lag getum við fagnað því að standa vel, bæði að því er varðar faraldurinn sjálfan innan lands, virkni aðgerða á landamærum en ekki síst framvindu bólusetninga.