151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:34]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að þakka ráðherranum fyrir skýrsluna sem hún flutti hér áðan og vonandi verður þetta síðasta skýrslan sem hún flytur okkur af þessu tilefni, nógu erfitt hefur þetta verið. En það hefur verið mikilvægt fyrir okkur í þinginu að fá þessar skýrslur og geta farið aðeins yfir þessi mál hér í góðu jafnvægi, ég held að það skipti mjög miklu máli. Ég efast ekki um allan þann góða vilja sem verið hefur bæði hjá ráðherranum og öllum þeim sem hafa komið að bólusetningum, að þær gangi eins hratt fyrir sig og frekast getur orðið, og varð. Auðvitað horfum við öll til þess að því ljúki innan skamms tíma.

Við erum að létta á takmörkunum, eins og kom fram í ræðu ráðherrans. Það finnum við öll hvar sem er í samfélaginu og við finnum að atvinnulífið er að komast af stað. Ég hef talað í nokkrum þessum umræðum og ég hef alltaf lagt áherslu á að samtakamátturinn og samstaðan í þessu máli hefur skipt mjög miklu máli. Það höfum við flest verið sammála um, það held ég að sé hluti þess árangurs sem við sjáum nú fram á og vonandi heldur það áfram. Ég hef þó áhyggjur af því, virðulegur forseti, að endurkoma fólks á vinnumarkað gæti orðið okkur þung í skauti. Ég hef verið að ræða það í velferðarnefnd og víðar, við ræddum það m.a. í atvinnuveganefnd í morgun. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hún deili þeim áhyggjum með mér. Mig langar líka að spyrja hana hvort hún sé ekki sammála mér um það að samstarf og ráðleggingar okkar besta fólks, landlæknis og sóttvarnalæknis og þeirra sem verið hafa í framlínunni, hafi verið lykillinn að þeirri stöðu sem við erum í í dag.