151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér um mál sem varðar nú ekki skýrsluna sem hér er til umræðu. En gott og vel. Í fyrsta lagi varðandi breytingar sem lúta að skurðstofum á Landspítala þá stafa þær breytingar fyrst og fremst af betri vinnutíma vaktavinnufólks, sem ég held að við ættum að geta verið sammála um að sé fyrst og fremst gríðarlega mikilvægt skref í því að bæta kjaraumhverfi, ekki síst kvenna, í heilbrigðisþjónustunni. Það er alveg ljóst að það er áskorun fyrir stjórnendur á Landspítala að bregðast við því en ég hef mikla trú á því að það verði gert.

Hv. þingmaður spyr almennt um mönnun í heilbrigðisþjónustunni og ég hef sett á laggirnar landsráð um menntun og mönnun í heilbrigðisþjónustunni þar sem við freistum þess að bregðast við í kerfinu í heild þar sem við horfum til lengri framtíðar varðandi menntun heilbrigðisstétta, ekki bara grunnmenntun heldur líka framhaldsmenntun. Þar eru fulltrúar bæði frá viðkomandi skólastofnunum en ekki síður okkar lykilheilbrigðisstofnunum sem hafa bæði hlutverk í því að mennta heilbrigðisstarfsfólk og auðvitað að veita heilbrigðisþjónustu.

Ég tek ekki undir það sem hv. þingmaður segir og það er því miður ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður talar eins og heilbrigðiskerfið á Íslandi sé komið að niðurlotum eða sé á einhvern hátt ekki í lagi því að það er fyrst og fremst gríðarlega sterkt og gott og öflugt, okkar kerfi. Við sjáum það ekki síst núna í Covid og í baráttunni við veiruna hversu öflugt það er. Ég vænti þess að við náum utan um þau mál sem lúta að mönnun og menntun. En það er alþjóðleg áskorun sem öll heilbrigðiskerfi (Forseti hringir.) koma til með að glíma við og við gerum það hér á landi eins og annars staðar.