151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrsluna. Það er svo sannarlega jákvætt hversu jákvæða skýrslu af stöðu faraldursins hún gat flutt okkur hér í dag því að, eins og kom fram í máli hennar, nokkur óvissa var uppi vegna nokkurra hópsmita í samfélaginu síðast þegar við ræddum þessi mál. Ég tel einmitt það hvernig tókst að vinna úr því, sem og öðru sem tekist hefur að vinna úr eftir því sem faraldrinum og viðbrögðum við honum hefur undið fram hér á Íslandi, sýna hversu vel okkur hefur tekist að bregðast við aðstæðum eins og þær hafa verið hverju sinni. Ég tel að því megi að miklu leyti þakka hversu vel okkur hefur gengið. Það eru gríðarlega jákvæðar tölur sem hæstv. ráðherra fór yfir hér varðandi bólusetningar og hversu vel okkur hefur gengið með þær, bæði það sem við sjáum hér innan lands og einnig í samanburði við aðrar þjóðir.

Fram kemur að langstærstur hluti þeirra sem nú eru í einangrun er í yngri kantinum, enda er það sami hópur og er síðastur til að fá bólusetningar. Mig langar því að spyrja: Gengur okkur ekki enn vel að ná til fólks? Það var náttúrlega gríðarlegt hópefli hér í upphafi þar sem við sáum mikið á samfélagsmiðlum þegar fólk mætti í bólusetningu. Getum við ekki áfram verið bjartsýn á að nú þegar kemur í yngri aldurshópana muni okkur halda áfram að ganga vel að ná til fólks og að það mæti í bólusetningu?