151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bæta því við það sem áður kom fram hjá mér varðandi bólusetningarviljann að samkvæmt könnunum vilja yfir 90% Íslendinga taka þátt í bólusetningum. Það hefur verið þannig hingað til í bólusetningunum gegn Covid, að allt efni sem dregið hefur verið upp í sprautur hefur ratað í einhvern handlegg þannig að ekkert hefur farið forgörðum.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvaða viðfangsefni blasi við okkur þegar faraldurinn sé að baki. Ég geri ráð fyrir að þá sé hún almennt að velta upp þeim samfélagsáskorunum sem munu verða okkar viðfangsefni. Að hluta til erum við að tala um beinar afleiðingar af Covid eins og t.d. að töluverður hópur af fólki mun þurfa á endurhæfingu að halda, að það er töluverður hópur sem hefur upplifað kvíða og þunglyndi og þarf að huga sérstaklega að geðheilbrigði sínu. Það er hópur sem hefur upplifað einmanaleika, innilokun, skort á tengslum o.s.frv. Önnur hafa svo kannski upplifað nákvæmlega það að tengslin urðu betri og sterkari o.s.frv. Allt þetta er eitthvað sem við þurfum að horfa sérstaklega til.

Lærdómurinn sem við höfum dregið af fyrri áföllum í samfélaginu, eins og til að mynda af efnahagshruninu á sínum tíma, er að áfall sem samfélagið verður fyrir í heild er áfall sem við verðum að gefa gaum. Það dugar ekki að velta bara fyrir sér áhrifunum á einstaklingana sem slíka heldur miklu frekar á samfélagið í heild. Þess vegna held ég að það skipti gríðarlega miklu máli að okkur hefur lánast, a.m.k. hingað til, að fara í gegnum faraldurinn fyrst og fremst með samstöðuna að vopni. Ég held að það geti orðið mjög erfitt og sárt fyrir samfélög ef samfélagssáttmálinn rofnar í gegnum áföll af þessu tagi.