151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Þetta er nú svo hátíðleg stund, ég vona að þetta sé síðasta skýrslan sem ég gef Alþingi um þessi mál. Ég veit að hæstv. forseti hefur mögulega tölu á því hversu oft ég hef gert það. Þá finnst mér einmitt ágætistilefni að fara yfir hvar við erum stödd, ekki bara gagnvart faraldrinum sem slíkum heldur ekki síst hvaða hlutverki pólitíkin hefur haft að gegna í þessu, bæði framkvæmdarvaldið með sínar heimildir, sóttvarnalæknir sem hefur ákveðið hlutverk samkvæmt lögum, og síðan löggjafarsamkoman, sem hefur tekið hér við gríðarlegum fjölda af þingmálum, af fjáraukatillögum, af lagabreytingum sem koma til af Covid og afleiðingum þess og hefur sýnt hvað í því býr, ítrekað, vil ég segja.

Ég held að þingið okkar, sem við erum stundum þreytt á og finnst stundum ekki skila öllu sem það gæti skilað, hafi virkilega staðið sig vel. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þingflokki Pírata fyrir að hafa verið á þessari vakt sem snýst um að spyrja spurninga og gera kröfur um fyrirsjáanleika þegar fyrirsjáanleikinn hefur ekki verið fyrir hendi og sýnt málefnalega nálgun og skilning á því að við gátum ekki alltaf séð fyrir hornið. Oft er það þannig, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns, að maður sér betur eftir á. Við sjáum t.d. að við biðum of lengi í haust sem leið í því að herða aðgerðir af því að við vildum trúa því að við næðum utan um hópsmitin. En við gerðum það ekki og fyrir vikið stóðum við í þeirri holskeflu fram yfir jól. En í grunninn hefur okkur lánast mjög vel og mér finnst að við getum bara verið nokkuð stolt af því sem lýðræðisríki að hafa náð utan um þetta og ekki fallið í þá freistni almennt að gera sóttvarnaráðstafanir og utanumhald um þær að pólitísku bitbeini.