151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:04]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það er mjög óheppilegt að fá ekki betri afhendingaráætlanir en við höfum fengið frá AstraZeneca. Það á sér einhverjar skýringar sem lúta að framleiðslunni og öðrum þáttum sem tengjast líka ákveðnum hnökrum sem AstraZeneca sem fyrirtæki hefur lent í í gegnum þetta allt saman. Maður sér það vel á samfélögum sem veðjuðu mjög hressilega á AstraZeneca, eins og Bretland, að það var skynsamlegt að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni og dreifa áhættunni svolítið. Við höfum gert ráð fyrir því að sérstaklega þessar ungu konur, sem eru mjög stór hópur í heilbrigðisstéttum, sem hafa fengið fyrri sprautu með AstraZeneca gætu fengið annað efni í seinni sprautunni. Það er mikilvægt að tala enn skýrar inn í þann hóp, tel ég vera, og þá ekki síst vegna þess að það eru ákveðin spurningarmerki sem koma þar upp. Sóttvarnalæknir hefur sagt að það sé öruggt. Það er betra að vera með sama efni í bæði skiptin en hitt er öruggt. En það eru spurningar sem lúta t.d. að vottorðum, þ.e. hvernig við gætum með mjög skýrum hætti gefið út vottorð á Íslandi þó að það séu tvö mismunandi bóluefni. En þá er spurningin: Hvernig er þeim tekið af öðrum ríkjum? Þessar spurningar liggja enn þá í loftinu og við erum að leita svara við þeim.

Enn og aftur vil ég nefna að það er mjög mikilvægt að gera kröfu um fyrirsjáanleika þótt hann sé ekki alltaf fyrir hendi vegna þess að það heldur okkur öllum á tánum. Þess vegna vil ég nefna það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kallaði líka eftir öllum gögnum frá mér og frá embætti sóttvarnalæknis til að fara yfir rökstuðninginn og bakgrunninn o.s.frv. Í lýðræðissamfélagi eiga slík samskipti bara að vera partur af ákvarðanatöku. Það hefur mér fundist vera einkar ánægjulegt og skynsamlegt.