151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:06]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hingað í dag og flytja okkur munnlega skýrslu um sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19. Ég verð að segja að staða bólusetninga er mun betri en ég þorði að vona og er ég þó bjartsýnismanneskja að eðlisfari. Það er ánægjulegt að fara inn á covid.is og sjá hvernig bólusetningarglasið er smám saman að fyllast. Við erum farin að verða vör við ferðamenn og veitingastaðirnir eru að fyllast og vonandi fer lífið að ganga sinn vanagang.

Ég er með spurningar sem hafa kannski að einhverju leyti komið fram áður en þó er hér blæbrigðamunur. Talað er um að bólusetja börn. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig staðan sé í þeim málum. Er ég þá sérstaklega að hugsa um börn í áhættuhópum en fréttir hafa borist um að matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hafi samþykkt notkun Pfizer-BioNTech fyrir börn á aldrinum 12–15 ára. Hvernig stendur mat Lyfjastofnunar Evrópu? Er útlit fyrir að hægt verði að fara í bólusetningu á börnum í áhættuhópi með þessu efni í júní?

Þá langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra út í það sem reyndar var komið inn á í síðustu ræðu, þ.e. að ferðahugur er kominn í margan Íslendinginn. Við höfum dæmi um bólusetningu með AstraZeneca sem fyrri skammt og Pfizer sem seinni, eða blandaða bólusetningu, og maður hefur heyrt að það teljist ekki full bólusetning og menn geti ekki fengið bólusetningarskírteini til Bandaríkjanna. Er eitthvað hæft í því? Og er þá ekki kominn tími til að fara að setja einhverjar reglur eða eru einhverjar reglur til í þessum efnum?