151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins í sambandi við 12–15 ára og Pfizer. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að leyfi hefur verið gefið í Bandaríkjunum og sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn, sem er tiltekin sérfræðinganefnd, mælir með að ábending bóluefnisins Pfeizer verði útvíkkuð þannig að einstaklingar 12–15 ára geti fengið bólusetningu með efninu. Núna er það samþykkt fyrir einstaklinga 16 ára og eldri, en þá yrði notkunin væntanlega með sama hætti, þ.e. tvær bólusetningar með þriggja vikna millibili. Á Íslandi liggur engin ákvörðun fyrir um hvort við myndum fara þessa leið, en skoðun stendur yfir þannig að sóttvarnalæknir er að skoða nákvæmlega þessi mál.

Hv. þingmaður veltir líka fyrir sér fleiri atriðum en mig langar kannski aðeins að bæta við því sem kom fram varðandi seinni bólusetningu. Það má segja að við höfum rúman tíma, vegna þess að gert er ráð fyrir allt að þriggja mánaða millibili milli fyrri og seinni bólusetningar, til að skoða hvernig þessu öllu vindur fram. Við erum að vona að meira efni af AstraZeneca fari að berast og allt sem kemur fer í bólusetningu tvö. Við erum að passa upp á að það Astra-efni sem kemur verði notað í bólusetningu tvö, við viljum halda því til haga.

Hvað varðar síðan vottorð og viðurkenningu á samsettri bólusetningu á landamærum þá hef ég ekki betri svör en þau sem ég hef þegar gefið um það. En það er algjörlega ljóst að þetta þarf að skoða.