151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi spurningu hv. þingmanns um landshlutana: Það er þannig að sóttvarnalæknir, í skipulagningu á dreifingu bóluefna, reynir eftir fremsta megni að tryggja jafna dreifingu á bóluefnum um landið. Það kann að vera að einhver einn landshluti fari aðeins fram úr á einhverju tímabili en þá jafnast það mjög fljótlega út aftur og á aldrei að verða neitt gríðarlega mikill munur þarna á.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þessa reynslu og ég held að það sé gríðarlega mikilvægur umhugsunarpunktur. Þessa reynslu þurfum við að gera upp með einhverju móti. Það er alveg ljóst að við gerum reynsluna upp gagnvart heilbrigðiskerfinu og við munum gera hana upp gagnvart því hvernig við glímdum við faraldurinn, hvernig sóttvarnaráðstafanir voru ákveðnar, hvernig við keyptum bóluefni, hvernig við dreifðum þeim, hvernig við skipulögðum bólusetningar, hvernig við ákváðum landamæratakmarkanir o.s.frv. Þetta er nokkuð sem sóttvarnalæknir tekur saman og gerir upp, það er bara partur af hans verkefni að gera faraldurinn upp þegar hann er að baki.

En við þurfum líka að gera betur. Við þurfum að gera þetta upp í miklu stærra samhengi, eins og hér hefur aðeins verið drepið á. Við þurfum að gera þetta upp sem samfélag. Við þurfum að gera þetta upp sem stjórnmálamenn. Við þurfum að gera þetta upp sem framlínustarfsfólk á ýmsum sviðum. Skólasamfélagið þarf að gera þetta upp, heilbrigðisstofnanirnar sem slíkar þurfa að gera það o.s.frv. Lærdómurinn varðar ekki bara það hvernig við glímum við hugsanlega faraldra í framtíðinni heldur líka það hvernig við sem samfélag sýnum styrkleika okkar og veikleika undir álagi.