151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa það hér í byrjun að mér hefur ekki gefist tími til að hlýða á umræðuna alla þannig að ég afsaka það fyrir fram ef hér eru endurtekningar. En mig langaði einfaldlega til að koma upp og tala um góðan árangur Íslands í bólusetningum, ég held að við finnum hann ansi mörg og hann sést mjög glögglega í alþjóðlegum samanburði. Mér finnst að niðurstaðan blasi við okkur, að stjórnvöld hafi staðið sig mjög vel að þessu leyti og að það eigi að nefna og það eigi að þakka fyrir það. Af því að við erum nú stundum að skammast þá á líka að þakka fyrir það þegar góður árangur horfir í andlitið á manni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé augljóst mál að þessi afstaða innan lands um samstöðu og samvinnu, það leiðarstef, hafi leitt til þessa árangurs og samvinna á alþjóðavettvangi, afstaðan um að ganga hönd í hönd með Evrópu í samstarfi um bólusetningu. Í því sambandi að góður árangur blasir við og það var grundvallarskylda stjórnvalda í þessum heimsfaraldri að tryggja hagsmuni þeirra sem hér búa, verja okkur fyrir veirunni með því að útvega bóluefni, langaði mig að nefna að staðan er þannig á heimsvísu að umtalsverður munur er á gengi bólusetninga. Í mörgum löndum er lítið sem ekkert í boði. Mér sýnist sem að best gangi í Norður-Ameríku og Evrópu, verst í Asíu. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. heilbrigðisráðherra þar um af því að það varðar okkar eigin hagsmuni að heimsbyggðin öll sé bólusett en er auðvitað líka ákveðið réttlætismál — mig langar að heyra hennar þanka að þessu leyti.