151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og líka fyrir það sem hún segir varðandi hlut stjórnvalda í því hvernig hefur gengið. Þá held ég að sé rétt af því tilefni að geta þess að það var einmitt að frumkvæði þingflokks hv. þingmanns sem þessi skýrslugjöf hófst hér á Alþingi. Mér er sagt að þetta sé í tíunda skipti sem ég sem ráðherra gef þinginu skýrslu af þessu tagi, sem var fyrst að tillögu þingflokks Viðreisnar en síðan hluti af lagaumhverfinu við breytingar á sóttvarnalögum, að þetta yrði gert. Ég held að það sé til góðs þó að maður finni kannski meira fyrir því þegar við erum í lægðum en þegar vel gengur. En þetta er framkvæmd sem ég held að sé til fyrirmyndar. Hv. þingmaður bendir réttilega á að baráttan snýst fyrst og fremst um að gæta að sínu samfélagi. Það er hlutverk stjórnvalda númer eitt, tvö og þrjú að gæta að sínu samfélagi og það höfum við gert. En jafnframt erum við í samstarfi með ríkjum heims og Sameinuðu þjóðunum í gegnum COVAX með það að ráðstafa fjármagni í kaup á bóluefnum. Við höfum líka skuldbundið okkur til að ráðstafa þeim bóluefnum sem út af standa þegar faraldurinn er að baki til þeirra ríkja sem meira þurfa á þeim að halda því það er rétt sem hv. þingmaðurinn segir að þegar öllu er á botninn hvolft er faraldurinn ekki að baki fyrr en heimsbyggðin öll hefur í raun og veru klárað það verkefni. Það er því algerlega ljóst að það er töluvert fram undan. Við leggjum töluvert fjármagn í þennan pott (Forseti hringir.) sem er í raun og veru hlutfallslega mikið fyrir Ísland þótt það séu ekki upphæðir á heimsvísu sem breyta öllu. En við erum mjög meðvituð um okkar skyldur í þessum efnum.