151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Já, það hlýtur að vera skylda stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig að einblína á það hver staðan er innan lands og eins og ég nefndi í fyrri ræðu þá gengur okkur vel og óskandi að við náum að koma þjóðinni allri í var sem allra fyrst. En ég hafði áhuga á þessu í samhengi við hver rödd Íslands væri út á við. Auðvitað leysum við ekki þennan vanda en við höfum áður verið í þeim sporum að rödd litla Íslands getur haft áhrif á það að beina kastljósinu í ákveðnar áttir, að Norður-Ameríka og Evrópa gleymi því ekki að vandinn nær lengra en þetta. Við sjáum t.d. hver staðan er í Bandaríkjunum að þessu leyti. Það eru þjóðir sem vel gætu miðlað. Það var nú kannski punkturinn, hver skilaboð okkar að þessu leyti væru út á við, til annarra þjóða.