151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:20]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari þá höfum við fyrst og fremst verið að vinna í gegnum COVAX en við erum líka í samstarfi við Evrópusambandið að því er lýtur að umframskömmtum hér. Ég vil taka undir það sem kemur fram í fyrri fyrirspurn hv. þingmanns um mikilvægi þess að við vorum samferða Evrópu í kaupum á bóluefnum. Ég held að það verði seint nógu oft ítrekað hversu mikilvæg sú ákvörðun var. Mér finnst skipta mjög miklu máli að sú umræða snúist ekki um það hvort við séum fylgjandi aðild að Evrópusambandinu eða ekki, sem því miður hefur stundum verið andinn í þeirri umræðu. Sú sem hér stendur er ekkert endilega talsmaður þess en hins vegar eigum við að vera samferða okkar góðu nágrönnum í Evrópu þegar það á við.

Við getum haft rödd í samfélagi þjóðanna. Við höfum haft það og við getum haft það áfram. Við gerum það í gegnum COVAX en við höfum líka sem betur fer getað gefið, að frumkvæði Landspítala, allnokkrar öndunarvélar til Indlands til að hjálpa til þar og við eigum alltaf að hafa þessi sjónarmið í huga.