151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 14. desember síðastliðinn var samþykkt með 58 greiddum atkvæðum skýrslubeiðni frá mér og átta öðrum þingmönnum til heilbrigðisráðherra um stöðu biðlista í heilbrigðiskerfinu vegna Covid-faraldursins. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um áhrif kórónuveirufaraldursins á biðlista í heilbrigðiskerfinu. Í skýrslunni verði teknar saman upplýsingar um það hvernig biðlistar hafi þróast eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp í landinu og hvaða aðferðum hafi verið beitt til að takmarka vöxt biðlista og hvaða aðferðum verði beitt til að vinna niður biðlista í framtíðinni. Fjallað verði um biðlista sem tengjast almennri og sérhæfðri læknisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og endurhæfingu. Gerð verði grein fyrir stöðu mála hjá opinberum stofnunum og einkareknum stofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.“

Í greinargerð með beiðninni segir:

„Í kjölfar þess að kórónuveirufaraldurinn barst til Íslands þurfti að grípa til ýmissa sóttvarnaaðgerða. Samhliða jókst álagið mjög á heilbrigðisþjónustuna. Þetta hefur leitt til þess að ekki hefur verið hægt að framkvæma eins margar aðgerðir og áður og ýmis þjónusta hefur sætt takmörkunum. Fyrir upphaf faraldursins voru biðlistar eftir ýmiss konar heilbrigðisþjónustu allt of langir og því vakna eðlilega spurningar um stöðu mála í dag. Vegna þessa biðlistavanda er lagt til að heilbrigðisráðherra kanni og geri grein fyrir stöðu mála í heilbrigðiskerfinu. Þannig má leiða betur í ljós hvort grípa þurfi til frekari aðgerða af hálfu Alþingis til að stemma stigu við biðlistavandanum.“

Þann 10. maí, í umræðu um fundarstjórn forseta, benti ég vinsamlega á að það væru liðnir um tveir mánuðir fram yfir þann tíma sem eðlilegt væri að skýrslan kæmi. Þá fékk ég svar frá ritara heilbrigðisráðherra og þar var sagt að ég mætti vænta þess að fá skýrsluna í lok mánaðarins. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvar er skýrslan? Er von á henni inn í þingið áður en því verður slitið?