151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

staða bólusetninga og sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna, eins og hún kom inn á hér áðan hafa þær verið allnokkrar á öllum þessum tíma. Ég sé að áhuginn fer minnkandi á umræðu um Covid-mál sem er kannski af hinu góða því að við erum bara orðin svolítið bjartsýn. Okkur gengur býsna vel í að bólusetja þjóðina og þó að við þurfum enn að muna eftir því að gæta að persónulegum sóttvörnum þá erum við í býsna góðum málum. Ég sé það í fréttum að farið er að senda út boð, virðulegur forseti, tilviljanakennd boð í bólusetningu, á einstaklinga og við erum komin niður í konur fæddar 1982 og karla 1999. Ég hef áður nefnt það hér við hæstv. ráðherra og velti því aðeins fyrir mér hversu langt við eigum að fara í aldri, hversu langt við þurfum að fara til að ná viðunandi hjarðónæmi hér á landi. Eins mikla trú og ég hef á bólusetningum og er sannfærð um að það sé leiðin okkar út úr þessu þá er líka spurning hvaða hópa má hreinlega bara verja fyrir því. Mig langar að velta því upp. Ég sé að #biðröðin hefur fengið alveg nýja merkingu á samfélagsmiðlum, áður var yfirleitt verið að vísa í poppstjörnur á leið til landsins eða erlendar keðjur sem hér væru að opna en nú er það bólusetningin sem er bara af hinu góða.

Á síðustu sekúndunum vil ég koma aðeins inn á það hvort við höfum ekki ákveðin tækifæri núna eftir Covid. Ég veit að álagið hefur verið gríðarlegt á heilbrigðiskerfið okkar og við höfum líka upplifað það hversu mikilvægt er að hafa einkaaðila, aðila sem standa utan hins opinbera kerfis, sem komið hafa fullum krafti með okkur í þetta verkefni. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki sé ákveðið tækifæri til að tala um blandaðan rekstur í heilbrigðiskerfinu.