151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:58]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að skjóta örlítið á hv. þingmann þó að hann eigi þess ekki kost að koma aftur upp í andsvar en ég skal gera það mjúklega. Hv. þingmaður hefur nefnilega lagt mikið upp úr hinum ýmsu smáatriðum laga um opinber fjármál og þar fram eftir götunum. Mér hefur alltaf þótt alveg sérstaklega ótrúlegt, svo ég segi það eins og er, að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson geri ekki meiri kröfur til verkefnisins sem borgarlína er kölluð hvað áætlunarþættina varðar. Varðandi þetta verkefni í heild sinni er algerlega óljóst hversu raunhæfar kostnaðaráætlanirnar eru eins og þær liggja fyrir en það liggur þó fyrir að engin rekstraráætlun er til sem hönd á festir. Það var það sem ég var að halda til haga. Fjárlaganefnd, fjármálaráðherra og við hérna, vörslumenn ríkisfjármunanna, alþingismennirnir, megum ekki láta teyma okkur út í það að þarna verði opinn krani hvað rekstur þessarar hugmyndar varðar. Ef ég hefði meiri tíma en hér er gæti ég farið í löngu máli yfir það hvaða valkostir aðrir komi til greina og hvers vegna þeir væru betri en það konsept sem nú liggur fyrir í formi borgarlínu. Þeir væru ódýrari og með tryggara umferðarflæði. Það væri alveg örugglega ekki upp á tíu sama flæði strætóa og í borgarlínunni en að heildarmyndinni skoðaðri eru miklu betri valkosti sem liggja fyrir en sú risaframkvæmd, sem er auðvitað mjög óljós hugmynd enn þá að mörgu leyti, sem má kosta að því er virðist hvað sem er, og hafa þau áhrif á flæði umferðar sem þarf til að hrekja fólk úr fjölskyldubílnum yfir í almenningssamgöngur. Við hjá Miðflokknum erum ekki sammála þeirri nálgun. (Forseti hringir.) Okkur þykir hún vond og það versta við hana (Forseti hringir.) er það hvað hún er fjárhagslega óábyrg (Forseti hringir.) og þess vegna segi ég aftur að mér hefur þótt sérstakt hvað hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur haft lítinn áhuga á akkúrat þeim þætti málsins. (Gripið fram í.)