151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, ég verð að svara þeirri spurningu sem fram kom undir lok andsvarsins með þeim hætti að mér þykir allt benda til þess að þeir hlutar samfélagsrekstursins alls sem eru í einkarekstri, í eigu einkaaðila og reknir á forsendum einkaaðila og einkarekstrar oft og tíðum, og þeir þættir sem eru með einhverjum hætti með samningssamband við ríkið virðast eiga afskaplega fáa talsmenn innan þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þannig er gengið fram af þeim sem höndla mál fyrir hönd heilbrigðisráðherra að það blasir við að verið er að reyna að ríkisvæða þetta allt með einum eða öðrum hætti.

Ég er hræddur um að þau fjölbreyttu form sem eru um rekstur dvalarheimila og öldrunarheimila verði öll einhvern veginn fyrir þessum trakteringum sem boðið er upp á af hendi ríkisstjórnarinnar. Auðvitað er það ekki nýtilkomið og má örugglega finna leiðir til að gera eitthvað með hagkvæmari hætti í rekstri þessara heimila. En þegar heimilin eru komin að fótum fram rekstrarlega séð þá er samningsstaðan engin og getan til að fara í endurskipulagningu verkferla og þar fram eftir götunum mjög takmörkuð. Síðan fá þessi heimili auðvitað í fangið það verkefni að stytta vinnutíma starfsmanna á grundvelli samninga þegar á þriðja tug þúsunda eru atvinnulaus. Tóm furða að sú sé staðan akkúrat núna. Þannig að enn og aftur, svo ég svari spurningunni, þá er ég hræddur um að sú tilfinning hv. þingmanns sé rétt, að þetta sé sérstaklega slæmt vegna þess að hluti þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir er í einkarekstri.