151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þetta andsvar því að þetta er mikilvægt málefni sem hv. þingmaður kemur hér inn á. Það er auðvitað ekki þannig að útboðstækar framkvæmdir geti verið hilluvara. Það geta verið rök fyrir því að hafa verk ekki hönnuð alveg til loka, tilbúin upp í hillu til útboðs. En ég hef lengi talið, ég talaði fyrir því frá því löngu áður en ég kom hingað inn á pólitíska sviðið, að stofnanir ríkisins, hvort sem það eru Ríkiskaup eða Vegagerðin, sem er stórtækust hvað útboðsmálin varðar, ættu að hafa ákveðinn stabba, ákveðinn fjölda verkefna sem væru allt að því hilluvara þegar þyrfti að ná fram hagstjórnarlegum markmiðum líkum þeim sem hv. þingmaður kom inn á. En partur af því að menn veigra sér við að nálgast mál með þeim hætti er í rauninni þetta ferli allt, þetta nálaraugamat á umhverfisáhrifum og tengd verk þar sem stofnanir segja, og stundum með réttu, að bara breytingar á hinum ýmsu í regluverkinu geti kollvarpað hönnun og þar fram eftir götunum. Þess vegna sé það of mikil fjárfesting að liggja með þetta tilbúið með þeim hætti.

Nú liggur fyrir og er til meðferðar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem ég held að sé til bóta þótt ég teldi að æskilegt væri að ganga lengra upp á fyrirsjáanleika framkvæmdaraðila að gera. En þetta er atriði sem ég held að við verðum að taka mjög föstum tökum strax á næsta kjörtímabili, því að þetta er nákvæmlega eins og hv. þingmaður lýsir því; verkefni eru iðulega ekki tilbúin til útboðs og framkvæmda fyrr en það er orðið of seint og þá jafnvel farið að ganga gegn markmiðum um hagstjórnarlega íhlutun þess tiltekna verkefnis. En skýringin er væntanlega fyrst og fremst sú að regluverkið er of síbreytilegt, frestir of stuttir. Það eru rökin fyrir því að stofnanir treysta sér ekki til að eiga tilbúin útboð, klár verk sem hilluvöru.