151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tvennt sem hv. þingmaður minntist á í ræðu sinni fyndist mér áhugavert að staldra við. Fyrst talaði hann um fjárheimildirnar og að hér væri komið fjáraukafrumvarp þótt hljómurinn hefði ekki verið þannig. Það átti að redda þessu með lagasetningu og varasjóðum o.s.frv. Það valtar yfir þá skiptingu valds sem við höfum hérna, að fjárveitingavaldið sé hér á þingi þar sem er aðgengi að upplýsingum um það hvað aðgerðir kosta sem ríkisstjórnin ætlar að fara í, hver væntur árangur er af þeim. Allt sem þarf að útskýra er á þessum umræðuvettvangi hérna með aðgengilegum skjölum fyrir almenning, en annars er það falið inni í stjórnsýslunni og enginn getur í rauninni gert neinar athuganir um hvort verið sé að fara í góðar aðgerðir eða ekki.

Svo er það náttúrlega annað mál hvort við fáum síðan upplýsingarnar yfir höfuð. Þannig að það er kannski skiljanlegt að framkvæmdarvaldið sé almennt á þeirri skoðun að það vilji bara sleppa Alþingi. Þegar ríkisstjórnin ákveður að fara í aðgerðir umfram það sem er lögbundið er rosalega mikilvægt í lýðræðislegu samhengi að koma með beiðni um fjárheimild og útskýra af hverju aðgerðirnar kosta svona mikið. Frumvörpin sem við fengum fyrir hinar og þessar aðgerðir voru kostnaðarmetnar að einhverju marki en við vissum ekki í rauninni hvort verið væri að taka þær af fjármagni sem þegar var til eða hvort þær hefðu meiri áhrif sem þyrfti þá að taka meiri lán fyrir eða hvað. Þarna var heildarsamhengið í rauninni sjálfbærni í opinberum fjármálum, sem er líka undir.

Í fyrra andsvari langaði mig að fjalla dálítið um þetta með hv. þingmanni, um mikilvægi þess að virða þau mörk sem eru hérna innan húss, um það hvar fjárveitingavaldið liggur í raun og veru.