151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég vakti einmitt máls á óútfærðum fjárheimildum í fjárlaganefnd í morgun. Í óvissuástandi vitum við að við þurfum að takast á við atvinnuleysi og vanda í heilbrigðiskerfinu o.s.frv. Við getum ályktað sem svo að það kosti 20 milljarða en við vitum ekki nákvæmlega hvernig við ætlum að bregðast við því af því að staðan breytist svo hratt. Ég velti fyrir mér hvort það væri óeðlilegt fyrir framkvæmdarvaldið að segjast meta að umfangið sé 20 milljarðar og að grípa þurfi til u.þ.b. þessara aðgerða þótt umfang hverrar aðgerðar fyrir sig sé ekki vitað. Það er svo samþykkt og seinna meir útskýrt hvert umfang hverrar aðgerðar er fyrir sig, án þess þó endilega að það þurfi að koma sem sérstakt þingmál, eða það kemur jafnvel sem lagafrumvarp sem er þó með kostnaðarmat þar sem vísað er í þessa óútfærðu heimild. Það getur virkað þannig, þá er þetta alla vega í réttri röð.

Hitt sem mig langar að fjalla um með hv. þingmanni er vaxtaumræðan sem hv. þingmaður minntist á. Við erum í því umhverfi að vextir eru að hækka. Ég vonast til þess að þeir geri það ekki mikið meira, þetta sé svona smáskref til baka. En horfur eru á því að gengið gæti líka styrkst og komið til móts við það þannig að það eru bæði jákvæð og neikvæð teikn á lofti. Við höfum vissulega fært okkur frá óverðtryggðum lánum, en eins slæm og óverðtryggð lán eru þá eru verðtryggð lán með breytilegum vöxtum jafnvel enn verri af því að það er ákveðin geðþóttaákvörðun á bak við breytingar á breytilegum vöxtum miðað við verðtryggðu vextina. Það er tiltölulega gagnsætt ferli um það hvernig verðtryggð lán breytast með tilliti til vísitölu neysluverðs en aftur á móti er enginn staðlaður ferill á bak við ákvarðanir lánastofnana um það hvernig breytilegir vextir þróast (Forseti hringir.) og tiltölulega ógagnsætt ferli. (Forseti hringir.) Ef eitthvað er eru þeir verri. (Forseti hringir.) Fólk getur fest vextina en það er ekki rosalega algengt, það er líka veðmál.