151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil þakka honum fyrir að taka upp umræðuna um stöðuna á fasteignamarkaði. Margt í því sem hv. þingmaður kom inn á var að mínu mati hárrétt, og mikilvægt að halda til haga.

En það var eitt atriði sem hv. þingmaður nefndi ekki sem mig langar að spyrja hann út í. Síðast í gær var frétt á vef Ríkisútvarpsins, ruv.is, undir fyrirsögninni: Hvetja sveitarfélög til að úthluta lóðum. Fréttin var unnin upp úr íbúðaþarfagreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem var gefin út í síðustu viku. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hvetur sveitarfélög til þess að úthluta lóðum svo mæta megi óuppfylltri íbúðaþörf sem sjaldan hefur verið meiri en nú.“

Þessi frétt birtist í gær. Mig langar að grípa niður í aðra frétt þar sem segir:

„Íbúðalánasjóður segir í nýrri mánaðarskýrslu sinni að sveitarfélög, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, geti með samstilltu átaki dregið úr þrýstingi á fasteignaverð með aukinni lóðaúthlutun.“

Fyrri fréttin sem ég las upp úr birtist í gær. Seinni fréttin sem ég las upp úr birtist 12. janúar 2005. Staðan er nákvæmlega eins hvað lóðaskort varðar núna á höfuðborgarsvæðinu og var árið 2005. Við þekkjum hvernig þessi saga hefur þróast og miðað við íbúðaþarfagreiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er gríðarlegur uppsafnaður skortur enn viðvarandi. Ef við tökum öll þau sjónarmið sem hv. þingmaður kom réttilega inn á að skipti máli í þessu samhengi til hliðar í eitt augnablik og horfum bara á þann þátt er snýr að lóðaúthlutun, hvað sér hv. þingmaður helst til ráða í þeim efnum hér á höfuðborgarsvæðinu?