151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er ágætt að rifja upp þetta þarfa verkefni Samtaka iðnaðarins, að framkvæma íbúðatalningu sem má segja að sé hreinlega ótrúlegt að hafi verið þörf fyrir til að byrja með. Það er svona eitt og annað, sýnist manni, sem verið er að reyna að gera í utanumhaldskerfi mannvirkja í heild sinni sem á að færa þetta til skárri vegar, en það hefur tekið ótrúlegan tíma og Samtök iðnaðarins eiga hrós skilið fyrir þetta verkefni sitt.

Sannarlega má til sanns vegar færa að sveitarfélög og ríki verða að deila ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er á húsnæðismarkaði. En staðan er grafalvarleg og ekkert bendir til þess að við sjáum fram á einfaldari tíma í þeim efnum, bara út frá því hvaða svæði eru áætluð til úthlutunar á næstu misserum og því hvernig mannfjöldaþróunin er að verða.

Þótt þetta sé auðvitað ekki efni frumvarps til fjáraukalaga þá skiptir þetta engu að síður máli inn í þá heildarmynd sem við erum að horfa á. Ég hef verið efins um þá stefnu sem stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, hefur rekið um allnokkra hríð sem snýr að því að beina uppbyggingu fyrst og fremst inn á svokallaða þéttingarreiti. Ég held, og þingmaðurinn leiðréttir mig ef það er rangt, að Viðreisn sé áhugasöm um lagningu Sundabrautar, ég hef skilið málflutning þingmanna Viðreisnar þannig. Sér hv. þingmaður fyrir sér að opnast geti hagkvæmt og gott byggingarland hér með veglínu Sundabrautar, þegar hún verður lögð, sem gæti létt á þrýstingi á höfuðborgarsvæðinu?