151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:32]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég skal játa að ég hef ekki velt því mikið fyrir mér hvort ákjósanleg byggingarsvæði yrðu til með lagningu Sundabrautar. En þegar ég reyni að sjá það fyrir mér í huganum þá kann það vel að vera. Reynslan er yfirleitt sú að byggð teygir sig út með samgönguæðum, það er þannig. Ég myndi halda að sú þróun væri ekkert ótrúleg. Það er líka rétt, fyrst hv. þingmaður spurði um Sundabrautina sjálfa, að við erum þeirrar skoðunar í Viðreisn að það sé mjög æskilegt að sú ágæta braut verði að veruleika. En við höfum svo sem líka bent á það, og það kemur kannski inn á umræðuefni okkar hér fyrr, að farið var að tala um það löngu áður en ég flutti til Reykjavíkur fyrir margt löngu síðan að æskilegt væri að ráðast í framkvæmd af þessu tagi. Einhvern veginn hefur okkur ekki tekist að útfæra það til fulls. En vonandi er nú farið að sjá til lands í því þannig að þá geti menn farið að huga að framkvæmdum. Ég held að það sé fyrir margra hluta sakir mjög gott, bæði fyrir höfuðborgina og ekki síður tengingarnar hér vestur um, að þetta verði að veruleika. Ég er sannfærður um að þetta muni skila ávinningi fyrir þau svæði sem næst eru og reyndar samfélagið í heild sinni ef út í það er farið.