151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef sömu gagnrýni og hv. þingmaður varðandi vinnumarkaðsaðgerðirnar, að þeim ljúki akkúrat þegar kosningar verða haldnar. Mér finnst það gjörsamlega sturlað. Ég átta mig ekki á slíkri pólitík, að ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til þess að koma hérna að tala við allt þingið um það hvernig við getum a.m.k. haft einhvers konar áframhald fram yfir kosningar þangað til kannski er kominn einhver pólitískur stöðugleiki á ný. Nóg um það.

Ég ætla að venda mínu kvæði í kross og fara aðeins í borgarlínuna því að það er svo gaman að spjalla um borgarlínuna við Miðflokkinn sem hefur ekkert til síns máls í því máli. Það er nefnilega svo merkilegt að þessi rekstraráætlun sem þeir segja alltaf að vanti er til. Það liggur alveg fyrir hversu mikið vagnarnir kostar í rekstri. Það er enn þá verið að fullkomna — leiðarkerfið verður aldrei fullkomnað, það er alltaf verið að breyta því aðeins til og frá eftir því sem ný hverfi byggjast upp og þess háttar, sem hefur smávægileg áhrif á rekstraráætlun. Þannig að núverandi rekstraráætlun er ekki lokaáætlunin og verður það aldrei af því að byggð heldur áfram að þróast hérna á höfuðborgarsvæðinu.

Vandinn sem ég held að við gleymum alltaf að benda á er að borgarlína klárast á 10–15 árum. Eftir þessi 10–15 ár verðum við með tugþúsundum fleiri íbúa á höfuðborgarsvæðinu, 40.000 fleiri segja einhverjar áætlanir. Það er í því umhverfi sem borgarlínan virkar. Ef við myndum bíða með að finna einhverja lausn eins og borgarlínuna værum við í miklu meiri vandræðum á þeim tíma og gætum ekki brugðist við á neinn gáfulegan hátt af því að það var einfaldlega of seint brugðist við. Þannig að já, borgarlínan myndi ekki virka neitt sérstaklega vel akkúrat eins og staðan er núna, en eftir tíu ár með 40.000 fleiri íbúa, virkar hún bara mjög vel, miklu betur en allar hinar lausnirnar sem voru í boði; fleiri akreinar og svo framvegis væru miklu dýrari kostur, lestardótið væri miklu dýrara og skilaði ekki sama árangri. Borgarlína var besta lausnin af þeim valmöguleikum sem voru í boði og rekstraráætlun var innifalin í þeim valkostagreiningum. Hún var besta lausnin, skilaði mestum árangri í flutningi fólks á milli svæða sem völ var á. Þannig að ég skil ekki af hverju Miðflokksmenn eru á móti hagkvæmri notkun á almannafé.