151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir hv. þingmaður vægast sagt bjartsýnn að telja að Reykjavík muni þróast með þeim hætti að eftir fáeina áratugi verði hún orðin eins og Amsterdam eða einhvern veginn gjörólík borg. Vandamálið er að þetta borgarlínufyrirkomulag hentar ekki þeirri tegund borgar sem Reykjavík er. Það gæti hugsanlega hentað í mun þéttbýlli borgum. Slíkt fyrirkomulag er kannski einna algengast í borgum í Suður-Ameríku. En iðulega eru sett upp sambærileg kerfi í borgum sem eru miklu þéttbyggðari en Reykjavík. Eðli borgarinnar er ekki að fara að breytast að því marki að hún verði slík borg. En jafnvel í þeim borgum þar sem ætti að vera mun hagkvæmara að reka slíkt kerfi, léttlestir, eins og var talað um hérna framan af, eða svona borgarlínu, eru þessi kerfi iðulega mikill baggi á rekstri borganna og jafnvel oft studd af ríkisfé. Þannig að jafnvel í borgum þar sem það hentar er það mjög dýrt. Menn geta rétt ímyndað sér hver kostnaðurinn verður hér, ég tala nú ekki um í ljósi reynslunnar af Strætó þar sem einungis um 30%, kannski allt að þriðjungur rekstrarkostnaðar, kemur inn í formi þeirra gjalda sem greidd eru fyrir að nýta þjónustuna. Ég er ekki að segja að hið opinbera eigi að hætta að styrkja almenningssamgöngur, alls ekki. Það er í rauninni ekki hægt að reka þær öðruvísi en með stuðningi skattgreiðenda. En það þarf að nýta það skattfé vel og það er ekki gert með því að reka tvöfalt strætisvagnakerfi og óhemju óhagkvæmt og gamaldags borgarlínuapparat.