151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi er þetta ekki tvöfalt kerfi. Kerfin vinna saman, borgarlína og strætó. Það verða hraðvagnar, í raun svipaðir þeim sem eru núna, koma í staðinn fyrir þá. Þannig að það er ekkert mikið öðruvísi en það er nú þegar nema það verða fleiri sérakreinar. Hv. þingmaður kom inn á að það þyrfti alltaf að borga með almenningssamgöngum. Já, það kostar pening. Það mun alltaf kosta eitthvað, það er alveg rétt. Hinar leiðirnar voru dýrari. Það liggur fyrir í þeim valkostagreiningum sem við höfðum. Ef við hefðum farið í að byggja enn fleiri akreinar hefði kostnaðurinn og viðhaldið verið meira en sá kostnaður sem fer í það að reka almenningssamgöngukerfi. Þetta er val um hversu mikinn pening við ætlum að borga. Ætlum við að borga slatta, mikinn pening, eins og fyrir borgarlínuna eða enn þá meiri pening sem hefði farið í hinar framkvæmdirnar? Þá erum við ekki með valmöguleikann um mismunandi kosti. Þá værum við bara með einn valmöguleika sem er frekar takmarkandi fyrir ansi marga, t.d. nemendur, sem mér finnst áhugavert að hv. þingmaður skyldi tala um í ræðu sinni, að það sé einhver styrkur fyrir Reykjavíkurborg að styrkja Strætó, því að rosalega margir farþegar eru nemendur sem koma úr nágrannasveitarfélögunum. Inni í því er Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og Mosfellsbæ, strætó flytur fullt af fólki til og frá Reykjavík. Þannig að það er alveg jafn mikill stuðningur fyrir nágrannasveitarfélögin sem eru einmitt þau sem hafa samþykkt að fara í borgarlínu. Hvert um sig er búið að skoða þessa valkostagreiningu og segja: Þetta er besta lausnin. Allir gerðu það nema Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík. Allir hinir sjálfstæðisflokkarnir í kringum borgina sögðu að þetta væri besta lausnin, besti valkosturinn miðað við notkun á almannafé. Það er margt hérna sem gengur ekki upp í málflutningi hv. þingmanns.