Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:59]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er snúið hvar skal byrja í þessari umræðu því að af nægu er að taka. Félagar mínir í þingflokki Miðflokksins hafa farið vel yfir marga þætti og ég hef hug á því að einbeita mér að því sem snýr að heilbrigðiskerfinu. Ég vil byrja á því að nefna að það á að auka fjárheimildir vegna þjónustu utan sjúkrahúsa um 300 milljónir og er ekki vanþörf á því þegar við horfum upp á það að flestir eru fluttir hingað á höfuðborgarsvæðið sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda.

Ég ætla aðeins að velta hér upp hugsun í sambandi við heilsugæsluna og þá stefnu hæstv. heilbrigðisráðherra að efla þar svokallaða fyrsta stigs þjónustu. Þar er ætlunin að bæta við 200 milljónum vegna geðheilbrigðismála og er það gert til að mæta áhrifum kórónuveirufaraldursins. Þessar 200 milljónir eiga þá að vera hluti af þeim 600 milljónum sem lagðar voru fram vegna faraldursins og sérstaklega áhrifa hans á börn og ungmenni. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett á stofn þverfagleg geðheilsuteymi barna sem vinna á landsvísu með meðferð, ráðgjöf og stuðning í huga. Eru þessi teymi á heilsugæslunni og á heilbrigðisstofnunum og flokkuð sem annars stigs þjónusta. Að því sögðu er býsna fróðlegt að fara yfir svar hæstv. ráðherra sem ég fékk nú fyrir stuttu vegna fyrirspurnar sem ég setti fram um biðtíma og stöðugildi geðlækna. Mér fannst full ástæða til að koma fram með slíka spurningu þar sem við sjáum oftar og oftar í fréttum talaði um að það sé aukin vanlíðan, bæði hjá þeim sem eldri eru og þeim yngri. Við verðum líka vör við að biðlistar lengjast og voru þeir langir fyrir kórónuveirufaraldurinn. En svo hefur bæst á þá biðlista. Þess vegna ákvað ég að velta fyrir mér stöðu geðlækna um allt land eða hvers lags stöðugildi við hefðum af geðlæknum hringinn í kringum landið.

Hingað til hef ég einungis spurt á hverjum þingvetri um stöðugildi og biðtíma vegna sálfræðinga en nú bæti ég geðlæknum inn í spurningu mína. Ég spurði sem sagt um stöðugildi geðlækna og hversu mörg stöðugildi þyrftu að vera til að tryggja viðunandi þjónustu. Ég spurði líka hversu mörg stöðugildi hefðu verið auglýst síðastliðið ár. Ég óskaði einnig eftir því að fá upplýsingar um hvar engar umsóknir hefðu borist. Ég var með allar heilbrigðisstofnanir landsins undir í þessum spurningum, þ.e. Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og svo Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Það eru frekar sláandi niðurstöður sem birtast í þessu svari og ég tel fulla þörf á því að fara yfir það hér til þess að við getum glöggvað okkur á myndinni sem við stöndum frammi fyrir. Við Heilbrigðisstofnun Austurlands er biðtími eftir geðlæknaþjónustu um fjórir mánuðir og þar er erindum forgangsraðað eftir bráðleika. Í svarinu segir að við stofnunina starfi nú yfirlæknir geðheilbrigðismála í 50% stöðugildi. Ein staða er talin nægja til að tryggja þjónustu við þá 11.000 íbúa sem búa í heilbrigðisumdæmi Austurlands. Það er líka tekið fram í svarinu að einu sinni hafi verið auglýst eftir geðlækni og eftir auglýsingu var einn ráðinn sem nú starfar hjá stofnuninni.

Við Heilbrigðisstofnun Norðurlands er ekki boðið upp á þjónustu geðlækna utan við þjónustu geðheilsuteymis og þörf fyrir geðlækna fer eftir mönnun á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta helst í hendur, samvinna Heilbrigðisstofnunar Norðurlands við Sjúkrahúsið á Akureyri. Heilbrigðisstofnunin er með geðlækni í 20% stöðu og er líklegt að hægt verði að nýta fulla stöðu geðlæknis, en heilbrigðisstofnunin hefur aðeins auglýst hlutastöðu í geðheilsuteymi og fékk þá eina umsókn. Það getur verið að þetta haldist í hendur við að það er sjúkrahús á Akureyri, ég veit það samt ekki.

Við Heilbrigðisstofnun Suðurlands var geðlæknir í 40% starfshlutfalli sem lét af störfum í mars síðastliðnum og hefur ekki tekist að manna þá stöðu að nýju. Það er því engin þjónusta geðlæknis þar og þess vegna enginn biðlisti. Leitað hefur verið til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að fá ráðgjöf vegna geðheilsu en ekki hefur verið auglýst eftir geðlækni við stofnunina síðastliðið ár.

Við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er enginn starfandi geðlæknir og þar af leiðandi enginn biðlisti. Í svarinu segir að við heilbrigðisstofnunina væri æskilegt að hafa eitt stöðugildi geðlæknis, þá við geðheilsuteymið á staðnum, en ekki hefur verið auglýst eftir geðlækni síðan 2019 og þá sótti enginn um.

Við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er ekki starfandi geðlæknir og ekki talin þörf á því að mati forstjóra.

Við Heilbrigðisstofnun Vesturlands er biðtími eftir fyrsta viðtali allt að þremur mánuðum eða lengri. Það fer eftir eðli vandans. Núna er geðlæknir starfandi við heilbrigðisstofnunina í 30% starfshlutfalli en miðað við þennan biðtíma er æskilegt að starfshlutfall geðlæknis væri a.m.k. 60%. Það kom geðlæknir til starfa í lok ársins 2019 og þá í 25% starfshlutfall og var það aukið í 30% starfshlutfall á síðasta ári.

Við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að geðlæknar starfi við geðheilsuteymin í þverfaglegri teymisvinnu. Koma þeir einungis að þjónustu við notendur teymanna eftir að þeir hafa verið innkallaðar. Biðtími eftir viðtali við geðlækna teymanna ræðst að mestu af bið eftir þjónustu teymanna frá því að tilvísun hefur verið samþykkt. Biðtími eftir þjónustu teymanna er sem stendur fjórir mánuðir við geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins austur, sem kalla má svo. Við geðheilsuteymi vestur eru það þrír mánuðir og við geðheilsuteymi suður einn mánuður. Það segir líka í svarinu að eftir að einstaklingur er kominn í þjónustu geðheilsuteymis er biðtími þeirra sem þurfa viðtal við geðlækni hjá þessum þremur teymum ein til tvær vikur og þar sem þjónusta geðheilsuteymanna er þverfagleg er þörf á aðkomu geðlækna breytileg.

Svo er til geðheilsuteymi þroskaraskana innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þar er engin bið. Það teymi starfar á landsvísu, en byrjað var að taka við tilvísunum til þess teymis 1. apríl í ár. Það er einnig til geðheilsuteymi fangelsa og þar er engin skilgreindur biðtími heldur. Teymið starfar á landsvísu. Hægt er að fá viðtal sama dag eða innan fárra daga, það fer allt eftir eðli og mati hverju sinni.

Þá er einnig geðheilsuteymi Fjölskylduverndar sem tók til starfa í janúar síðastliðinn. Það starfar einnig á landsvísu. Það er líka fyrsta tilraunaverkefni sem samstarf er um milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og geðþjónustu Landspítala, en þar er biðin eftir viðtali við geðlækni þrjár til fjórar vikur. Tekið er fram að innan geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins séu nú sex geðlæknar í jafn mörgum stöðugildum, en það er fyrirsjáanlegt að þeir þurfi að vera níu eða tíu til að tryggja viðunandi þjónustu. Ekki hafa verið auglýst stöðugildi geðlækna við þau teymi sem ég talaði um hér fyrr, en það kemur fram í svarinu að í júní á síðasta ári hafi verið ákveðið að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins kæmi á fót landsþjónustu ráðgjafar og þjónustu geðlækninga sem nái til allra heilsugæslustöðva á landinu. Þar er um að ræða þrjú tímabundin störf til eins árs til að styrkja geðheilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og til að þjóna landsbyggðinni með fjarþjónustu og heimsóknum. Auglýst var eftir þremur geðlæknum á árinu 2020 en engar umsóknir bárust þar til nú í ársbyrjun og gengið hefur verið frá ráðningu eins geðlæknis í 60% starf frá 1. apríl. Unnið er að ráðningu fleiri geðlækna til að veita þessa ráðgjafarþjónustu fyrir landsbyggðina.

Mér finnst á öllu þessu að ætlunin sé að miðstýra aðkomu geðlækna og nota fjarheilbrigðisþjónustu þegar um er að ræða þjónustu við íbúa landsbyggðarinnar. Ef um bráðavanda er að ræða verður fólk að reiða sig á utanspítalaþjónustuna sem ég nefndi hér fyrst og verður að vera virk á öllum þeim stöðum hringinn í kringum landið ef við eigum að geta treyst á að lögbundin heilbrigðisþjónusta virki sem skyldi.

Mér finnst mikilvægt að koma því að í þessari umræðu því að ég er ansi hrædd um að stjórnvöld, ríkisstjórnin, hugsi ekki nægjanlega langt í þeim efnum. Við heyrum að andleg heilsa landsmanna, bæði þeirra yngri og þeirra sem eldri eru, sé metin lakari nú en áður.

Ef við lítum til þess að það gengur ágætlega að manna stöðu geðlækna við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þá vaknar óneitanlega sú spurning hvaðan þeir læknar koma. Getur verið að þeir komi frá vinnustöðum, sem sagt á sjúkrahúsum, í þessu tilfelli Landspítala, ef við tölum um höfuðborgarsvæðið, þar sem álagið er mjög mikið og við vitum að vaktavinna er mjög slítandi? Nú er verið að veita aukið fjármagn inn í heilsugæsluna og þá sérstaklega inn í geðheilbrigðishluta heilsugæslunnar þar sem er ekki sama álag með tilliti til vaktavinnu í það minnsta. Þess vegna væri áhugavert að skoða í framhaldinu hvernig mönnun geðlækna verður og hvernig hún er innan sjúkrahúsanna og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér ef geðlæknar innan sjúkrahúsanna fara í auknum mæli að starfa á heilsugæslunni. Það er þá bæði gagnvart þeim sem þurfa á þjónustunni að halda en ekki síður gagnvart öðru starfsfólki.

Að lokum vil ég aðeins minnast á ályktun sem læknar á heilsugæslu voru að senda frá sér þess efnis að það er aukið álag á heilsugæsluna. Það hafi vissulega komið fram aukið fjármagn til heilsugæslunnar, en það fjármagn sé eyrnamerkt. Læknarnir kalla eftir auknum sveigjanleika svo heilsugæslan geti sjálf ráðstafað þeim fjármunum.