151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:17]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa spurningu. Ég veit að hv. þingmaður hefur ágætisþekkingu á þessum málaflokki og ég fagna því mjög ef við getum náð að varpa aðeins ljósi á og gefa okkur smá tíma til að ræða þessi mál hér.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins var auðvitað eitt af stóru málunum þegar ég kom hér fyrst inn en hún hefur ekki alveg gengið eftir. Talandi um forgangsröðun, við höfum því miður öll fylgst með sorglegri sögu átröskunarteymisins og það sem verra er, núna erum við að fara að reisa nýjan Landspítala, verið að vinna að því að setja niður nýjan meðferðarkjarna, talað um rannsóknastofur o.s.frv., en það á ekkert að gera fyrir þá sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda inni í þessari uppbyggingu. Átröskunarteymið hefur verið á hrakhólum, hefur þurft að flýja myglað húsnæði, og verður nú að sætta sig við það að framtíðarsýn heilbrigðisráðherra sé að geðheilbrigðisþjónustu á nýjum Landspítala verði komið fyrir í einu af gömlu húsunum sem við vitum að þarf heldur betur að gera upp.

Öllu öðru sem hv. þingmaður nefndi hér er ég fullkomlega sammála líka. Það þarf að forgangsraða og eyða fordómum þó að þeir séu margfaldir og í veldisvexti.