151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að hv. þingmaður fyrirgefi mér þó að ég haldi mig á sömu slóðum. Þetta er þröngt málefnasvið en það er mikilvægt. Það er mikilvægt að við ræðum þetta. Það svar sem ég fékk við fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í ár kom í janúar eða febrúar til þingsins og þar var ekki góðan tón að finna. Það hljómaði eins og vandinn væri eitthvað sem Landspítalinn ætti að leysa þrátt fyrir að þetta sé þjónusta sem eigi að vera aðgengileg úti um allt land og eigi að vera á ábyrgð ríkisins að tryggja að sé eins góð og unnt er. En sá tónn breyttist sem betur fer þegar hinn kaldi raunveruleiki rann upp fyrir ráðherranum. Í fréttum í framhaldi af birtingu svarsins sagðist ráðherrann, loks viku eftir að svarið leit dagsins ljós, ætla að kalla eftir endurbótaáætlun, uppbyggingaráætlun, frá Landspítalanum um það hvernig eigi að leysa úr þeim bráðavanda sem átröskunarteymi Landspítala býr við í dag.

Mig langar að spyrja, vegna þess að ég veit að kallað hefur verið eftir upplýsingum um þessa áætlun í velferðarnefnd, hvort hv. þingmaður viti hvar þau mál standa, hvort eitthvert samtal hafi átt sér stað við ráðuneytið eða hvort þetta sé bara einhvern veginn að dingla sér í kerfinu enn þá. Nú erum við með fjáraukalög fyrir framan okkur, eða frumvarp til þeirra, þar sem á að taka á ófyrirséðum útgjöldum. Flest þau útgjöld sem eru lögð til eru allt annað en ófyrirséð en við skulum gefa okkur að umfang vanda átröskunarteymisins hafi verið ófyrirséð vegna þess að það kemur skýrt í ljós fyrst eftir áramót í svari við fyrirspurn. Þar kemur í ljós að árið 2020, þegar teymið er allt of lítið, er kostnaður við teymið 55 millj. kr., þetta er nú ekki meiri peningur en það. (Forseti hringir.) Hvernig væri að þessi fjáraukalög myndu leggja til að tvöfalda þann pening á þessu ári til að leysa þennan bráðavanda?