Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu. Í sambandi við sálfræðiþjónustu er staðan sú að Sjúkratryggingar Íslands hafa farið í útboð á sálfræðiþjónustu. Við lestur fyrstu línunnar í því útboði verður maður hamingjusamur en þó aðeins um stund vegna þess að svo les maður áfram og þá óttast ég að bara sé verið að greiða götu þeirra sem eru með „stærri stofur“. Það getur verið ágætt fyrirkomulag þegar við hugsum um höfuðborgarsvæðið en það vekur hjá mér töluverðan ugg þegar ég hugsa um landsbyggðina, sem ég geri alltaf, vegna þess að við erum oft og tíðum með einyrkja sem vilja koma sér upp stofurekstri og þeir geta ekki tekið þátt í þessu útboði nema þeir fari undir hatt einhvers annars. Þá eru þeir orðnir útibú og þá erum við aftur komin í þennan miðlæga rekstur sem virðist einkenna alla kerfisvæðinguna í heilbrigðiskerfinu.

Það er annað sem gerist. Mér líst mjög vel á að við séum að efla geðheilsuteymin, ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég óttast að við séum bara að færa tappann þannig að þegar maður fer inn í fyrsta stigið og geðheilsuteymið, sem er vissulega annað stig, þá þarf að vísa manni áfram. Hvað ef við höfum ekki mannskap þar? Því að sá mannskapur er búinn að gefast upp og er kominn til starfa á fyrsta stigi. Þetta er vond hringekja.