151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svo sannarlega tekið undir þetta og við þurfum ekki að líta mjög langt aftur til þess að sjá hvernig samningar við sjúkraþjálfara voru settir fram. Það var með öllum tiltækum ráðum reynt að fá þá til að starfa innan stofnana eða þá við stærri einingar. Það sama er uppi á teningnum ef við ræðum um talmeinafræðinga og alla þessa sjálfstætt starfandi sérfræðinga, vil ég leyfa mér að segja. Við getum líka rætt sérgreinalækna sem eru ekkert allir hér á höfuðborgarsvæðinu en meðan þeir eru ekki með samninga er lítil von um að þeir geti valið sér starfsvettvang öðruvísi en að ráða sig inn á Landspítala. Og eins og hv. þingmaður kom svo vel inn á þá geta þeir ekki valið sér starfsvettvang. Þeir sem eru í heilbrigðisgeiranum hafa ekki úr svo mörgu að velja. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru það heilsugæslustöðvarnar eða Landspítali. Þannig er staðan og er það það sem við viljum?

Ég sem einstaklingur vil kannski geta ráðfært mig við tvo, þrjá ólíka sérfræðinga vegna þess að allir hafa sína sýn og þá get ég tekið ákvörðun út frá því. Ef við förum að steypa alla og allt í sama mótið verðum við föst í botni sílósins. Það er bara það sem gerist.