151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:48]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir áhugaverða ræðu. Ég held að ég geti verið alveg fyllilega sammála megininntaki ræðu hv. þingmanns enda er kannski um einhvers konar sýndarmennsku að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar rétt fyrir kosningar. En á sama tíma segir hv. þingmaður í ræðu sinni að það eigi að varast eftirlíkingar og gefur til kynna að mögulega sé hans flokkur, væntanlega, með betri nálgun í þessum efnum. Þetta fékk mig til að hugsa aðeins. Á meðan það eru margar mikilvægar aðgerðir í þessum fjáraukapakka þá er áferðin á þessu pínulítið eins og í gangi sé smá sýndarmennska fyrir kosningar af hálfu stjórnarflokkanna og að verið sé að búa til þá ímynd að þau standi sig betur en ástæða er til að telja. En á sama tíma er sýndarmennska raunverulegt vandamál í íslenskum stjórnmálum. Flokkar eru svolítið að reyna að sýna sig og sannfæra kjósendur um eigið ágæti. Mig langar að spyrja hv. þingmann að tvennu. Í fyrsta lagi: Hvernig er eðlilegt að sporna við þessari eiginlega bara óþurftar bylgju sýndarmennsku í íslenskri pólitík? Og hins vegar: Þykir hv. þingmanni eðlilegt að verið sé að skeyta saman annars vegar mikilvægum aðgerðum og hins vegar sýndarmennsku af hálfu stjórnarflokka í fjárauka rétt fyrir kosningar?