151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er afskaplega ánægður með þetta andsvar hv. þingmanns og þakka fyrir það. Orð hans í þessu andsvari benda til þess að hann hafi hlustað allvel á málflutning Miðflokksins undanfarin ár og ég gleðst yfir því. Það er alveg rétt að við Miðflokksfólk höfum talað sérstaklega um það að íslensk stjórnmál séu meira umbúðir en innihald að mjög miklu leyti, því miður. Þess vegna höfum við barist fyrir þeirri skynsemi og rökhyggju sem við höfum verið að boða og komið fram með alvörulausnir við vandamálum, sem er því miður allt of fágætt í íslenskri pólitík. Þannig að ég tek alveg undir með hv. þingmanni hvað þetta varðar, enda er það bara eins og talað út úr okkar hjarta þannig lagað.

En hvað er til ráða? Nú mig langar að vitna, með leyfi forseta, í Biblíuna þar sem segir: Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá. Vonandi verður málflutningur sem byggist á skynsemi og rökhyggju og alvörulausnum á brýnum vandamálum ofan á þrátt fyrir gylliboð og sýndarmennsku af hálfu þeirra sem ráða, t.d. eins og núna, og geta með auðveldari hætti komið sínum málstað á framfæri en stjórnarandstaðan kann og getur. Nú fer í hönd tími borðaklippinga og skóflustungna og eitthvað svoleiðis. Það eru slíkar umbúðir sem við þurfum að brjótast í gegnum til að innihaldið verði öllum ljóst. Ég kvíði því ekki og við munum náttúrlega halda því áfram, Miðflokksfólk, og ég er ánægður að heyra að það er áhugi fyrir slíku í fleiri flokkum.