151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er reyndar alveg rétt hjá hv. þingmanni að ég hef fylgst með málflutningi Miðflokksins síðustu árin. Ég held að það hafi verið svolítið erfitt að komast hjá því á köflum. Og einmitt í tengslum við þessa umræðu um sýndarmennsku þá er kannski allt í lagi að rifja upp að það hafa verið þó nokkur löng málþóf af hálfu Miðflokksins sem hafa kostað þingið tugi milljóna í aukalegum kostnaði og yfirleitt út af málum sem standast í rauninni ekki skoðun. Þannig að sýndarmennska í stjórnmálunum er klárlega eitthvað sem við eigum við að etja, bæði hjá stjórnarflokkunum og kannski líka hjá einhverjum stjórnarandstöðuflokkum. Ég minnist t.d. umræðu um þriðja orkupakkann svokallaða þar sem lofað var að það kæmi sæstrengur nánast undir eins, sem ég veit ekki til þess að sé kominn. Það var líka langt málþóf nýlega þar sem verið var að gagnrýna borgarlínu, yfirleitt á röngum forsendum.

En markmiðið var svo sem ekki að koma hingað í blammeringaherferð gagnvart Miðflokknum. Það er nægur tími til þess síðar. En kjarninn er engu að síður sá að ég veit ekki til að neinn stjórnmálaflokkur, þar með talið minn eigin, sé algjörlega saklaus af ákveðinni sýndarmennsku. En hérna kemur ríkisstjórnin með frumvarp, að hluta til mjög mikilvægt, rétt fyrir kosningar og að hluta til er það kannski einhver sýndarmennska. Mér fannst svar hv. þingmanns ekki nægilega skýrt: Hvernig stoppum við það að flokkar segi það sem hentar þeim og geri það sem lítur vel út án þess að það sé eitthvað raunverulegt á bak við það, t.d. staðreyndir?