151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú skjátlast hv. þingmanni mjög illa. Það er hins vegar mjög gott að fá tækifæri til að leiðrétta sumt af því sem fram kom í máli hans í þessu andsvari. Hann talaði um að meint málþóf Miðflokksmanna hefði kostað Alþingi milljónir. Ég vil benda á það að sá sem hefur dagskrárvaldið á Alþingi er forseti þingsins en ekki einstakir stjórnmálaflokkar. Og umræða sem hefur kannski teygst hér fram í einhverjar nætur og yfir einhverja daga er ekki vegna þess að einn stjórnmálaflokkur hafi sérstaklega kært sig um það, heldur var það ákvörðun forseta þingsins á hverjum tíma að halda mönnum við efnið eins og hann gerði. Þá var aftur á móti ekki annað í boði fyrir okkur Miðflokksfólkið en að gegna því og vera hér jafn lengi og umræðan þurfti að vera.

Það er beinlínis rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að Miðflokksfólk hafi í þessari umræðu haldið því fram að það væri væntanlegur sæstrengur hingað. Það er hins vegar mjög auðvelt fyrir hv. þingmann að sjá áhrifin af þriðja orkupakkanum, þ.e. samþykkt hans, nú í dag, t.d. bara með því að horfa á ásókn í smávirkjanir og ásókn í vindmyllugarða. Þetta er bara til að leiðrétta það. Það sem hv. þingmaður talaði um, meint málþóf út af borgarlínu, er rétt hjá honum. Við börðumst gegn ákveðnum þáttum í borgarlínu og munum halda því áfram. Og hvað hafðist upp úr því málþófi? Það hafðist upp úr því að núna hefur Alþingi lágmarksneitunarvald gegn því að hér verði eytt úr ríkissjóði hundruðum milljarða í fánýti þar sem borgarlínan er. Þannig að það meinta málþóf, hv. þingmaður og herra forseti, var sko ekki til einskis. Það var til þess að ríkissjóður hefði einhverja stöðu í þessu máli, enda er þetta fyrsta atriðið sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi þegar hann var tekinn í viðtal eftir þessa umræðu. Það var þetta sem Miðflokkurinn barðist fyrir.