151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:27]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætlaði að byrja á því að fara í gegnum þetta í stóru myndinni, en ég ætla að snúa því við vegna þess að mig langar til að leggja áherslu á fjárveitingar til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu sem mig grunar að ekki hafi fengið mjög mikla yfirferð í þessari umræðu. Þetta er framlag sem mér þykir bæði stórkostlegt en að sama skapi mögulega heldur lágt. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að fjárheimild málaflokksins hækki um 250 millj. kr. vegna framlags Íslands til þróunar og dreifingar bóluefnis gegn kórónuveirunni til þróunarríkja. Gert er ráð fyrir að framlag Íslands verði 500 millj. kr. en að 250 millj. kr. verði fjármagnaðar með breyttri forgangsröðun innan alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.“

Gott og vel, 500 millj. kr. er gott framlag inn í þetta. Alþjóðlegum stuðningi við dreifingu bóluefnis gegn kórónuveirunni í þróunarlöndum hefur verið stýrt af COVAX-samstarfinu, sem er samstarf milli Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og GAVI, sem hér er kallað Alþjóðaónæmisaðgerðasjóðurinn, sem er stórkostleg þýðing á heitinu. Þetta er í rauninni samstarfssjóður fjölmargra ríkja og fyrirtækja og stofnana sem eru að reyna að dreifa bóluefni víða um heim. Bara til að undirstrika hversu mikilvægt þetta er þá er gríðarleg hætta á því að ný afbrigði af kórónuveirunni spretti upp, sem verða hugsanlega þess eðlis að núverandi bóluefni hafa ekki næga virkni gegn þeim. Kórónuveiran breytist mjög hratt. Við höfum séð mjög mörg afbrigði koma upp á örstuttum tíma. Sem betur fer hafa þau verið þess eðlis að núverandi bóluefni hafa ágætisvirkni og mjög góða virkni í langflestum tilfellum, en við sjáum mismikinn hraða á dreifingu bóluefna. Á Íslandi eru í dag, eða þegar tölur voru síðast uppfærðar, í kringum 57% landsmanna búin að fá fyrsta skammt. Mig grunar að það sé komið nær 60% núna og erum við þá komin mjög langt í áttina að hjarðónæmi. Svipaða sögu er að segja í ýmsum öðrum löndum. Ísrael var mjög ofarlega mjög lengi, Bútan sömuleiðis. Innan Evrópusambandsins eru 38% fullorðinna komin með alla vega fyrsta skammt, í Norður-Ameríku eru það í kringum 37%. En síðan þegar við förum að skoða fátækari lönd heimsins þá fer þetta að líta illa út mjög hratt. Í Suður-Ameríku eru í kringum 18% fullorðinna búin að fá fyrsta skammt. Í Asíu eru það eingöngu um 6% á heildina litið. Þá erum við að horfa á gríðarlega vont ástand á Indlandi um þessar mundir þar sem dánartölur eru himinháar. Í Afríku eru aðeins um 2% fullorðinna búin að fá fyrsta skammt. Ef maður fer síðan ofan í tölurnar eru þetta um 28 milljónir skammta sem búið er að dreifa í heimsálfunni Afríku sem stendur. Þar af eru um 18 milljónir í tíu löndum, þannig að þá er afgangurinn þessar 6–8 milljónir — ég er aðeins búinn að rugla sjálfan mig í tölunum, það er vont að gera þetta út frá minni, en þær dreifast þá yfir afganginn af ríkjunum. Það eru 54 ríki í Afríku þannig að restin dreifist á 44 og þetta eru mjög mannmörg ríki í mörgum tilfellum.

Það er algjört lykilatriði að leggja sérstaka áherslu á að reyna að auka samstarfsmátt og slagkraft alþjóðasamfélagsins í að auka bólusetningarhlutfall í þeim löndum sem hafa minnsta efnahagslega getu til að kaupa bóluefni á eigin forsendum og upp á eigin spýtur vegna þess að það gæti forðað því að við lendum sjálf í annarri skaðlegri bylgju kórónuveiru síðar. Við erum komin í upprætingarherferð. Og vel á minnst, herra forseti, þá hefur mannkynið eingöngu upprætt með öllu tvo sjúkdóma á heimsvísu, en ótrúlega margir sjúkdómar eru eftir. Og reyndar, úr því að ég er að tala um verkefni sem GAVI tengist, þá höfum við á Íslandi verið að gefa peninga til GAVI í mörg ár og notar GAVI þá m.a. til að bólusetja gegn HPV, mislingum, rauðum hundum, kóleru, lömunarveiki, taugaveiki, gulu o.fl. Það er því ótrúlega gott samstarf nú þegar til staðar. Þessir peningar munu nýtast gríðarlega vel, bæði til að fækka dauðsföllum í þeim löndum sem njóta góðs af samstarfinu en einnig til að minnka líkurnar á því að heimsbyggðin öll fái yfir sig nýja bylgju faraldursins sem þróa þarf ný bóluefni við. Mig langar bara til að koma því eins sterklega á framfæri og hægt er að Ísland er ríkt land. Við getum séð af meiri peningum í þetta, hver króna mun skila miklu og sé þess nokkur kostur er full ástæða til að auka við þá fjárveitingu, þótt það sé ekki nema lítillega. Hver króna mun skila miklu þarna.

En eftir að hafa eytt hálfum ræðutíma mínum í þetta, því að þetta skiptir gríðarlegu máli, ætla ég að reyna að taka saman afganginn í snarheitum. Kannski er fyrst hægt að segja að þegar ég leit yfir frumvarpið fannst mér flest virka mjög vel á mig. Ég sá ekki að neinu væri sérstaklega ofaukið í því. Hvergi er verið að sóa peningum í einhverja vitleysu. Þetta er allt saman eitthvað sem mikil er þörf á. En eins og komið hefur fram, m.a. í ræðu hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar rétt áðan, þá voru þetta kannski að flestu, ef ekki öllu leyti fyrirsjáanleg útgjöld og hefðu þá undir eðlilegum kringumstæðum átt að koma inn í fjármálaáætlun og fjárlög þessa árs. Ég skil að einhverju leyti að það hafi ekki verið gert vegna þess að það voru lagabreytingar í einhverjum tilfellum sem ekki lá fyrir að þyrfti að gera ráð fyrir í þessu. Gott og vel. En það er samt alveg ástæða til að velta því fyrir sér hvort við værum í þessari stöðu ef við hefðum unnið vinnuna aðeins betur í fjárlögunum fyrir jól og sammælst um þá hluti sem þyrfti að gera. Það eru mekanismar í lögum um opinber fjármál sem styðja einmitt við slíkt ferli.

Hinn gagnrýnispunktur minn er að flestar aðgerðirnar eru tímabundnar en flestar þeirra þyrftu að vera varanlegar. Það er t.d. aukning á fjárheimild í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu. Það eru auknar fjárheimildir til geðheilbrigðismála sem við vorum að ræða um áðan við hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur. Það er gegnumgangandi í þessu að flestar aðgerðirnar sem er komið inn á ættu að vera varanlegar. Auðvitað er sumt, eins og t.d. fjárveiting til Strætó bs., sem þyrfti ekki endilega að vera varanlegt. Sömuleiðis er ferðagjöfin eitthvað sem er einskiptiskostnaður, en hin atriðin eru að miklu leyti eitthvað sem ætti að vera varanlegt. Þannig að það stingur mig pínulítið. Auðvitað verða fjárlög tekin fyrir í haust og við ræðum kannski um framtíðarskipulag þessara hluta þá, reyndar ekki ég en einhverjir munu gera það. En að settir séu fyrirvarar við allar þessar fjárveitingar veldur mér ákveðnum ugg. Einmitt þessir fyrirvarar, þessi orð um að þetta sé bara tímabundið og þurfi að gerast núna vegna ástandsins í samfélaginu og eitthvað svona — það er dálítil kosningalykt af því. Með þessu getur fólk sagt, sérstaklega í ríkisstjórnarmeirihlutanum: Sjáið, við erum rosalega góð, við veitum fjármuni í þessa hluti núna sem skipta rosalega miklu máli. En svo geta þau á sama tíma spilað út aðhaldsspilinu og sagt: Við erum að reyna að spara peninga ríkisins og ætlum því ekki að láta aðgerðirnar vera varanlegar.

Við ræddum aðeins áðan, ég og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að það er ákveðin tilhneiging til sýndarmennsku í íslenskri pólitík. Ég held að þetta sé dæmi um slíkt og ég held að það mætti nálgast þetta af meiri staðfestu. En ég held að ég láti þetta duga um það í bili.

Mig langar aðeins að ræða um ferðagjöfina. Mér finnst hún áhugaverð tilraun og hún hefur verið mjög gagnleg, hefur gagnast ferðaþjónustunni og veitingageiranum að miklu leyti. Það er mjög áhugavert að sjá hvernig peningarnir hafa dreifst á einstaka fyrirtæki og reyndar er mjög áhugavert að sjá að í gær voru flestir að drífa sig í að nýta ferðagjöfina á síðustu stundu. Það fóru um 80 millj. kr. út á þeim lokaspretti. Það fær mann til að hugsa að annars vegar sé ferðagjöfin kannski pínulítið gallað verkfæri, vegna þess að hún styður tiltölulega lítið við tiltölulega fá fyrirtæki á tíma þegar mörg fyrirtæki hefðu haft gott af ríkari stuðningi, og hins vegar er þetta mjög lítil upphæð á hvern einstakling. Jú, það er svo sem hægt að segja að fríar 5.000 kr. séu mjög góðar fyrir hvern sem er. Ég naut góðs af minni ferðagjöf þó svo að ég sé gagnrýninn á þetta fyrirkomulag. En það er samt þannig að við ættum að horfa á þetta í stærra samhengi. Annaðhvort á ríkið að leggja til peninga til einstaklinga án einhverra takmarkana með þeim hætti sem hér var gert, eða þá ætti ríkið ekki að koma þar að.

Það vill þannig til að minn flokkur hefur lengi talað fyrir því að við förum í tilraunir með einhvers konar borgaralaunafyrirkomulag og má segja að ferðagjöfin sé mjög gölluð og mjög takmörkuð tilraun til þess. Að því leytinu til, ef við horfum fram hjá því að það er pínulítið flókið að nota ferðagjöfina, ekki óyfirstíganlegt fyrir flesta en einhverjir hafa átt í vandræðum — ég sá meira að segja bara í gær að fólk hefur átt í vandræðum með að fá símann sinn til að virka með forritinu — ef maður horfir fram hjá göllunum þá var þarna um að ræða áhugaverða tilraun til að veita peninga beint úr ríkissjóði til einstaklinga. Þetta er kannski eitthvað sem ætti að gera frekari tilraunir með og þá opnari, en við þyrftum líka að skoða aðeins hvert markmiðið er. Er markmiðið bara að styðja við tiltekin fá fyrirtæki í ákveðnum geirum eða er markmiðið að reyna að hámarka nytsemi og flæði peninga og hagkerfið okkar, sem ég held einmitt að ætti að vera markmiðið?