151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér fjáraukalög. Þetta er síðasta verk sitjandi ríkisstjórnar þegar kemur að fjármálum ríkisins og það er vissulega af nægu að taka enda stórt og mikið verk óunnið við að reisa við efnahag þjóðarinnar. Hér er tekið skref í þá átt. Það er jákvætt að sjá í frumvarpinu nauðsynlega innspýtingu í félags- og vinnumarkaðsmálin og stuðning til sköpunar tímabundinna starfa, en það sem vantar áberandi mikið er þó aukinn stuðningur við varanlega atvinnusköpun. Við horfum fram á að árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna atvinnuleysis verður á þessu ári tólffalt hærri en framlagið sem nú er lagt til viðbótar í atvinnusköpun, 12 sinnum hærra. Það er því til mikils að vinna og auðvitað ekki bara vegna þess að viðvarandi atvinnuleysi er kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, heldur vegna áhrifa á heimilin þar sem þúsundir einstaklinga og fjölskyldna munu búa við skertar tekjur og glíma við önnur tengd vandamál, fjárhagsleg, líkamleg og andleg, sem við vitum að fylgir langvinnu atvinnuleysi.

Ég hefði því viljað sjá fleiri áþreifanlegar aðgerðir ætlaðar til lengri tíma. Það er kannski til of mikils ætlast að þess sjái stað í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Ég ræddi það á sínum tíma að það voru akkúrat þessi merki sem ég hefði viljað sjá í síðustu fjárlögum og svo fjármálaáætlun ríkisstjórnar sem var samþykkt í gær með öllum greiddum atkvæðum meiri hlutans. Þannig að þessi fjárauki dugar tæplega til þó að það megi beita honum af ákveðnum krafti. Og þarna eru, eins og ég segi, tekin skref í tímabundnum aðgerðum sem munu auðvitað skipta fjölmarga máli.

En það er atvinnusköpunin sem er lykilatriði. Við þurfum að leggja grunninn að umhverfi sem ýtir undir náttúrlega fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði og sporna gegn ósjálfbærri þróun sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar, eða aðgerðaleysi öllu heldur, hefur ýtt undir. Ég hefði t.d. viljað sjá þessum fjárauka beitt til frekari lækkunar gjalda sem gera fyrirtækjum auðveldara að skapa störf. Sértækar aðgerðir til að fjölga störfum til langtíma á landsbyggðinni hefði verið æskilegt að hafa með núna, og aðgerðir sem stuðla að auknum hagvexti með aukinni framleiðni. Ég hefði viljað sjá kjark til að fjárfesta enn meira í arðbæri grænni tækni, í menntun og innviðum. Allt þetta til að stuðla að langtímaatvinnuuppbyggingu til þess að stefna að langtímahagvexti og stöðugleika.

Herra forseti. Auðvitað er ógangur í atvinnumálum ekki ríkisstjórninni einni að kenna. Hér varð heimsfaraldur og í kjölfarið varð hér hrun, ekki síst í einni af undirstöðuatvinnugreinum okkar. En þessi óveðursský, sem hafa birgt okkur sýn svolítið lengi, voru farin að hrannast upp áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Þetta voru óveðursský sem ríkisstjórnin sá mögulega ekki fyrir út af góðærissólgleraugunum sem hún var hreinlega of sein að taka ofan. Ofan á allt það var síðan ferðaþjónustan á heimsvísu verst úti vegna kórónuveirufaraldursins og hún er, eða var, okkar stærsta atvinnugrein. Þessi atvinnuleysiskreppa var því fyrirsjáanleg frá fyrsta degi. Það var ekki að ástæðulausu sem Viðreisn kallaði eftir því strax í upphafi þegar menn voru farnir að huga að sértækum aðgerðum, að við myndum taka stór skref strax til að mæta efnahagsvandanum. Það fer mjög mikil orka í að taka þessi litlu skref og það er hætta á að þar sé fjármunum ekki beitt eða þeir ekki nýttir nægilega markvisst. Við hefðum viljað sjá innviðafjárfestingum flýtt, þ.e. þeim sem hægt er að flýta, í stað þess að dreifa þeim yfir árin. Við hefðum viljað sjá hraðari orkuskipti, fyrirsjáanleika í stuðningi við nýsköpun, fyrirsjáanleika og öryggisnet fyrir fólk í atvinnuleit og minni álögur á fyrirtæki. Við sumu af þessu var brugðist af hálfu ríkisstjórnarinnar en sumt kemur fyrst fram í þessum fjáraukalögum og það er býsna seint.

Annað sem ég hefði viljað sjá ríkisstjórnina leiðrétta með þessum fjárauka er verulegur og, ég leyfi mér að segja sár skortur á fjárfestingu í lýðheilsu þjóðarinnar. Sú þörf var orðin ljós fyrir kórónuveirufaraldurinn. Og ekki bara á Íslandi heldur víða í hinum vestræna heimi er þetta þróun sem við höfum séð fyrir og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur varað við verulega lengi, hinum svokölluðu lífsstílstengdu sjúkdómum sem eru farnir að vera sífellt stærri hluti af viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins okkar. Við fáum skýrslu eftir skýrslu sem sýnir okkur að nýgengni örorku má rekja beinlínis til vanrækslu þegar kemur að lýðheilsumálum þjóðarinnar og áfram mætti telja. Þegar við bætist síðan langvarandi atvinnuleysi, tekjutap, kvíði og óvissa þá er það orðið býsna brýnt t.d. að fjármagna samninga Sjúkratrygginga Íslands við sjálfstætt starfandi sálfræðinga, eins og ríkisstjórnin þóttist styðja við í fyrra. Það er sennilega mikilvægasta forvirka aðgerðin sem hægt er að ráðast í til að draga úr neikvæðum afleiðingum kórónuveirufaraldursins, svo ekki sé fleira nefnt.

Sumir myndu kannski telja það of seint að kalla eftir þessu núna en við erum enn þá í 1. umr. fjáraukalaga. Hér hafa þingmenn meiri hlutans, ég kalla þá sérstaklega til vegna þess að það er einsýnt að ekki eru gerðar breytingar sem þingmenn minni hlutans leggja til, tækifæri til að færa sig yfir á rétta braut og leiðrétta það sem ég vil kalla mistök, sýna það í verki að andleg heilsa sé metin til jafns við líkamlega heilsu. Á meðan ekki sú vegferð er ekki farin að tryggja varanleg störf með beinni fjárhagslegri innspýtingu í þessum fjáraukalögum þá er þetta mjög mikilvæg aðgerð til a.m.k. að lágmarka þann skaða, langvarandi skaða sem aukið atvinnuleysi hefur á heilsu þjóðarinnar.

Herra forseti. Ef við höldum rétt á spilunum þá getur þingheimur veitt raunverulega viðspyrnu við samdrættinum. Með þjóðhagslega hagkvæmum fjárfestingum getum við tryggt aukinn hagvöxt sem er forsenda bættra lífskjara. Það er mun dýrara fyrir þjóðina ef ríkisstjórnin dregur lappirnar á þessum tímapunkti. Nú kunna einhverjir að segja að það sé hreinlega nóg gert, 14,6 milljarða kr. viðbótarframlög til aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. En staðreyndin er sú, eins og við þekkjum, að kostnaðurinn vegna Covid nemur nú þegar margfaldri þeirri fjárhæð og hann mun halda áfram að hækka og kosta þjóðina meira. Við þurfum á næstunni að leggja í vinnu við að greina stærstu sóknarfærin okkar, fjárfestingu í grænni tækni, í atvinnusköpun, í lýðheilsu og í gengisstöðugleika. Þarna eru sóknarfæri. Við eigum að fjárfesta í aðgerðum sem skila sér til baka í aukinni framleiðni og auknum hagvexti. Það er eina leiðin til að tryggja að við náum að vaxa upp úr yfirstandandi kreppu og að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um svokallaðar afkomubætandi aðgerðir á borð við niðurskurð og/eða skattahækkanir rætist ekki, vegna þess að þær aðgerðir eru til þess fallnar að vinna gegn markmiðum, rétt eins og óstöðugur gjaldmiðill gerir.

Þessi fjáraukalög eru ekki fjármálaáætlun eða fjármálastefna ríkisstjórnarinnar, vissulega ekki, en þau eru síðasta verkfærið, síðasta verkfæri ríkisstjórnarinnar og síðasta tækifæri þingheims til að bregðast við stöðunni á þessu kjörtímabili og tryggja raunverulega og örugga viðreisn Íslands.