151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna tvennt við hv. þingmann, annars vegar vegna þess að hún kom inn á mikilvægi þess að gera betur í loftslagsmálum og aðgerðum til að sporna gegn þeim. Þau eru ekki bara spurning um það sem við verðum að gera til að koma í veg fyrir hamfarir í framtíðinni heldur eru þetta líka nýsköpunarsprotar framtíðarinnar. Leiðin til að vaxa út úr Covid og leiðin til að vaxa út úr loftslagsbreytingum, hvernig við byggjum upp réttlátt samfélag framtíðarinnar, á hugviti og tækniframförum og því öllu.

Þessu tengt langar mig spyrja, vegna þess að við erum hér að fjalla um fjáraukalög sem í orði kveðnu eiga að endurspegla ófyrirséð útgjöld sem ekki voru ljós í desember þegar við samþykktum fjárlög fyrir yfirstandandi ár. Þau eru það nú ekki öll í þessum frumvarpstexta, en gott og vel. Hins vegar eru þarna útgjöld sem voru að aukast bara í gær þegar við samþykktum fjáraukalög, það eru einmitt útgjöld til loftslagsmála, vegna þess að í desember, í sama andardrætti og þingið samþykkti fjárlög þá boðaði forsætisráðherra að Ísland myndi taka þátt í auknum metnaði Evrópusambandsins í loftslagsmálum. Þann milljarð sem bætt var við fjármálaáætlun næstu fimm ára, þ.e. milljarður á ári, til að koma til móts við þennan aukna metnað — látum liggja á milli hluta að sá milljarður hrekkur hvergi nærri til — er ekki að finna í fjárlögum þessa árs. Ætti hann ekki einmitt að vera í fjáraukalögum þessa árs í ljósi forsögunnar og þess hvernig metnaðurinn jókst á slæmum tíma upp á fjárlagaferlið að gera?